Fjölskylduráðgjöf

STARFSFÓLK OG SÍMATÍMAR

Jiri Berger fjölskylduráðgjafi/sálfræðingur
símatími kl. 11-12 á miðvikudögum í síma: 460 4628

Sérsvið: Fjölskyldur grunnskólabarna

 

Ritari/fulltrúi fjölskylduráðgjafar er Sigurbjörg Haraldsdóttir
(sibba@hsn.is), sími 460 4658

 

Á heilsugæslustöðinni er lögð áhersla á fjölskylduforvarnir og þá sérstaklega með þverfaglegri þjónustu við verðandi og nýorðna foreldra, svo og fjölskyldur leikskóla- og grunnskólabarna. Þetta er gert í þeim tilgangi að hlúa að innviðum fjölskyldunnar, að efla foreldrahæfni og fjölskylduheilbrigði. Lögð er áhersla á virðingu og skilning í viðhorfum og viðmóti og að mæta misjöfnum þörfum fólks fyrir stuðnings- og meðferðarúrræði. Byggt er á þeim viðhorfum að heilsuvandi og áhrif hans á einu æviskeiði verði vart skilið nema í tengslum við það sem á undan er gengið á lífsbrautinni og í fjölskyldusögunni. Fjölskylduráðgjöfin hefur umsjón með samhæfingu og þróun á þessari þjónustu í samvinnu við aðra faghópa.

Öllum íbúum í umdæmi heilsugæslustöðvarinnar stendur þjónusta fjölskylduráðgjafarinnar til boða en forgangshópar eru verðandi foreldrar, foreldrar ungra barna, einstæðir foreldrar og fjölskyldur grunnskólabarna. Þeim sem óska eftir þjónustu er bent á að hringja í fjölskylduráðgjafa í símatíma þar sem hægt er að fá ráðleggingar, áframhaldandi þjónusta er ákveðin eða vísað á aðra fagaðila. Einnig er hægt að panta tíma eftir milligöngu og tilvísun annarra fagaðila.

Í fjölskylduráðgjöfinni eru starfandi þrír fjölskylduráðgjafar (í samtals 2,0 stöðugildum) og ritari, sem gefur upplýsingar um þjónustuna. Opið er daglega kl. 8-16. Þjónustan er hluti af heilsuvernd heilsugæslunnar og er gjaldfrjáls.

Algengast er að fólk leiti til fjölskylduráðgjafar vegna tilfinningalegrar vanlíðunar, erfiðleika í fjölskyldutengslum, áfallaúrvinnslu, kynferðisofbeldis og ráðgjafar vegna uppeldismála, sambúðarerfiðleika og skilnaðarúrvinnslu (ráðgjöf til foreldra vegna forsjármála er að öllu jöfnu vísað til Fjölskyldudeildar Akureyrarbæjar). Öll meðferð og nálgun miðar að því að efla sjálfsskilning, sjálfstyrk og tilfinningatengsl.

Starfsemin fer fram í viðtölum, símatímum og námskeiðum/fræðslu. Lögð er áhersla á að efla fjölskyldutengsl, líðan og hæfni foreldra til að styðja börn sín betur í gegnum ýmiskonar áföll og erfiðleika.

 

Máttur tengslanna - málþing

20 ára afmæli fjölskylduráðgjafar og þverfaglegs samstarfs á HAK í október 2008

Á árinu 2008 var þess minnst með ýmsum hætti að 20 ár voru liðin frá því Fjölskylduráðgjöf HAK tók formlega til starfa og um leið skipulagt þverfaglegt samstarf fagstéttanna. (Sjá kaflann um Nýja barnið). Fjölsótt málþing var haldið í tilefni af því undir yfirskriftinni Máttur tengslanna.

Afmæli fjölskylduráðgj.2008 – hér má lesa meira.