Málþingið - Máttur tengslanna

,,Máttur tengslanna”

„Það þarf heilt þorp til að ala upp barn”

Samantekt eftir fundarstjóra Pétur Pétursson

3. október 2008 stóð Heilsugæzlustöðin á Akureyri fyrir ofangreindu málþingi í tilefni af því, að á þessu ári eru 20 ár liðin frá því að fjölskylduráðgjöf HAK tók til starfa. Málþingið var ætlað starfsmönnum heilbrigðisþjónustunnar í landinu, starfsfólki félagsþjónustu sveitarfélaga, stjórnmálamönnum og öðrum þeim, sem áhuga hafa á hinum huglægu velferðarmálum fjölskyldunnar. Tilgangur þess var að dýpka skilning viðstaddra á tilfinningalífi og áhrifum tengsla á heilsu, þroska og farsæld einstaklinga og fjölskyldna og vekja umræður um hvernig hlúum við betur að bernskunni, heilsunni og tilfinningatengslum. Þátttaka var framúrskarandi góð og munu 135 manns hafa setið málþingið.

Undirtitill málþingsins er vel þekkt máltæki frá Afríku, sem vísar til hinna mikilvægu áhrifa, sem umhverfið hefur á uppvöxt, þroska og persónumótun hvers einstaklings. Til þingsins var boðið tveim alþjóðlega þekktum fyrirlesurum og vísindamönnum á sviði læknisfræði og sálfélagslegra vísinda, sem tíunduðu nýjustu þekkingu, sem sannreynd hefur verið á þessu sviði. Segja má, að sú hugmyndafræði, sem legið hefur að baki öllu starfi fjölskylduráðgjafar HAK og vinnulags ,,Nýja barnsins” hafi þarna fengið mjög öflugan, vísindalegan stuðning. Fyrir því má núorðið færa sannreynd, vísindaleg rök, að andleg líðan móður hafi strax í móðurkviði umtalsverð áhrif á þroska fósturs og eftir fæðingu skipti öflug og heilbrigð tilfinningatengsl hins uppvaxandi einstaklings við sína nánustu höfuðmáli fyrir tilfinningaþroska, persónumótun, samskiptahæfni og andlega og líkamlega velferð hans í framtíðinni. Var boðskapur þessi einörð hvatning til heilsugæzlunnar í landinu að starfa í þeim anda, sem gert hefur verið á HAK á undanförnum 20 árum.

* * *

Heimafólk fjallaði í upphafi um sögu, nálgunarleiðir og framtíðarsýn fjölskylduráðgjafarinnar og aðferðafræði ,,nýja barnsins,” en það er sérstakt vinnulag, sem þróað hefur verið í mæðravernd og ungbarnavernd heilsugæzlustöðvarinnar á Akureyri og byggist á skimun áhættuþátta með viðtölum heimilislæknis og skjólstæðings, fjölfaglegri teymisvinnu og samráði um úrræði, meðferð og stuðning.

Karólína Stefánsdóttir yfirfjölskylduráðgjafi reið á vaðið og taldi það mikið gæfuspor, þegar sú sögulega ákvörðun var tekin í stjórn heilsugæslustöðvar og síðan í bæjarstjórn Akureyrar í lok kvennaáratugar að koma á fót fjölskylduráðgjöf við HAK samkvæmt 19. grein þágildandi heilbrigðislaga. Vandað hafi verið til undirbúnings í samráði fagstéttanna og fengin sú bezta hugsanlega handleiðsla, sem völ var á. Karólína sagði að á þessum 20 árum hafi þátttakendur í þessu starfi stöðugt orðið meðvitaðri um þann sköpunarkraft og þá möguleika sem búa í góðum tengslum. Tengslum sem einkennast af gagnkvæmri virðingu, opnum huga og getunni til að hlusta á gjöfulan hátt og hvetja þannig til að bæði þjónustuþegar og fagfólk geti vaxið og skapað saman. “En öll höfum við fundið hvernig tengsl geta líka verið afar máttug á hinn neikvæða hátt ef þau stjórnast af fordómum, hroka, erfiðum tilfinningum, vanvirðingu eða þöggun”

Karólína vék að þeim markmiðum, sem jafnan hafa verið sett í starfi fjölskylduverndarinnar, en þar hefur jafnan verið reynt að nýta sérstæða möguleika heilsugæslunnar til að efla fjölskylduheilbrigði með þverfaglegri samvinnu við heimilislækna, mæðra- og ungbarnavernd og jafnframt að samhæfa og þróa þjónustuna í samráði við notendur hennar. Leiðarljósið hefur jafnan verið að fjölskyldutengslin séu undirstaða góðrar heilsu og uppspretta lífsgilda. Þá vitnaði hún til nýrri hugmynda um tilfinningaþroska og tengslamyndun og mikilvægi ástar og umhyggju í því sambandi, sem beinlínis nærir heila okkar og taugakerfi. Heilbrigða tengslamyndun taldi hún byggja á innlifunarhæfni foreldra og getu til að mæta og takast á við erfiðar tilfinningar. Hún ræddi um mikilvægi hinnar gjöfulu hlustunar og og heilbrigðs verðmætamats og sagði að það hefði verið HAK mikil hvatning þegar heilbrigðisráðuneytið valdi ,,Nýja barnið” sem framlag Íslands í samkeppni þróunarverkefna í tilefni 50 ára afmælis Evrópudeildar WHO árið 1998, þar sem það fékk sérstaka viðurkenningu, sem einstakt og mikilvægt þróunarstarf.

Síðan eru liðin 10 ár og samfélagsþróunin er slík í dag að mikil og vaxandi þörf er fyrir margvíslega þjónustu og stuðning við fjölskyldur og einstaklinga sem eru að takast á við afleiðingar áfalla, mikillar streitu, sjúkdóma eða vanrækslu. Kynbundið ofbeldi og afleiðingar þess eru stöðugt meira að koma upp á yfirborðið og um leið vaxandi skilningur á því hvernig óleystur vandi foreldra og þöggun samfélagsins kemur niður á heilsu og velferð barna og sérstaklega á hinum viðkvæmu fyrstu æviárum” Hún taldi mikilvægt í umróti samtímans að læra af fortíðinni og finna leiðir til að gera hornstein heilbrigðiskerfisins, heilsugæslur landsins betur í stakk búnar til að þróa virka fjölskyldu- og geðvernd.

Glærur frá fyrirlestri Karólínu

Hjálmar Freysteinsson heimilislæknir dró fram það sem reynslan af þessari vinnu hefði kennt sér og öðrum í liðsheildinni. Í upphafi var lagt upp með það markmið að þróa starfsaðferðir í heilsuverndarstarfi í þá átt að hugað sé að sálrænum og félagslegum áhættuþáttum ekki síður en líkamlegum og ná samvinnu við þurfandi fjölskyldur um úrræði og nýta þar hin tíðu samskipti við heilsugæzluna og þann aukna samstarfsvilja, sem jafnan er til staðar á þessu mótunarskeiði fjölskyldunnar. Hann benti á hversu hugmyndafræði fjölskylduverndarinnar hefði fallið vel að hugmyndafræði heimilislækna og því hefði samstarfið gengið svo vel sem raun ber vitni. Aðilar samstarfsins hefðu sannfærzt æ betur í áranna rás um nauðsyn tímanlegra forvarna á geðverndarsviði og mikilvægi samfelldrar og persónulegrar þjónustu til að byggja upp gagnkvæmt traust og trúnaðarsamband, sem þýðingu hefði til framtíðar. Hann lýsti nokkuð vinnulagi ,,nýja barnsins” og lagði áherzlu á þá þýðingu, sem þátttaka í teymisvinnunni hefði fyrir starfsmenn. Í djúpskimunarviðtali heimilislæknis og hinnar verðandi móður er m.a. grafist fyrir um erfiða og sársaukafulla reynslu úr fortíðinni. Kom honum framan af á óvart, hve tilbúnar verðandi mæður voru að ræða opinskátt um aðstæður og lífsreynslu sína og hvernig þær sjálfar sáu og skildu mikilvægið

í undirbúningnum fyrir foreldrahlutverkið. Það að spyrja ekki um t.d. kynferðislega misnotkun taldi hann vera skilaboð um að heilbrigðisstarfsmaðurinn væri ekki reiðubúinn að hlusta. Þá fjallaði hann um tvær greinar frá HAK um andlega líðan kvenna á Akureyri eftir fæðingu og tengsl þunglyndiseinkenna og foreldrastreitu við þriggja mánaða aldur barns við heilsufar, félagslega stöðu og líðan kvenna á meðgöngu, sem birtust í Ljósmæðrablaðinu í júní 2007, þar sem fram kom að foreldrastreita á svæðinu var mun minni en landsmeðaltal þótt þunglyndi samkvæmt Edinborgarskala virtist sízt minna. Niðurstaða hans var að notendurnir hefðu tekið breyttu vinnulagi feginsamlega en andstöðu væri fremur að finna innan kerfisins, enda gerði vinnulagið miklar kröfur til samstarfshæfni þátttakenda og til að halda því gangandi væri öðru hvoru þörf á hugsjónaendurlífgun.

Glærur frá fyrirlestri Hjálmars

Þuríður Hjálmtýsdóttir sálfræðingur kallaði erindi sitt Lífsins strauma og benti á að vandamál og einkenni gætu verið merki um að eitthvað þurfi að breytast til þess að líf okkar geti orðið gjöfulla, innihaldsríkara og árangursmeira. Hún taldi fólk vera í eðli sínu gott og jákvætt og búa yfir eigin vizku, uppsprettu þekkingar um það hvað sé því fyrir beztu, hvað það eigi að gera næst og hvernig eigi að fara að því. Hlutverk þerapistans sé að hjálpa fólki til að komast í snertingu við þessa uppsprettu þekkingar. Hún benti á að sú merking, sem við gefum atburðum lífsins, hefur mikil áhrif á athafnir okkar og líðan og sá vandi, sem að höndum ber á lífsleiðinni skiptir ekki höfuðmáli heldur hvernig við tökumst á við það sem kemur fyrir okkur og hvernig við túlkum atburði og lífsreynslu. Hún rakti þær spurningar, sem hver og einn verður að spyrja sig, sem vill hafa áhrif á þau viðbrögð og túlkun og breyta lífi sínu til betri vegar og lagði hún áherzlu á, að fólk gæfi sér tíma fyrir andlega rækt.

Glærur frá fyrirlestri Þuríðar

 

Margrét Guðjónsdóttirframkvæmdastjóri HAK fjallaði um mikilvægi þverfaglegs samstarfs, teymisvinnu, samráðs og samþættingar, þegar taka þarf á flóknum vandamálum einstaklinga, er leita til heilbrigðis- eða félagsþjónustu. Með vaxandi sérhæfingu eykst þörf fyrir heildaryfirsýn. Hún gerði grein fyrir teymisvinnu og samþættingu í heilsuverndarstarfi á HAK og samstarfi við aðrar stofnanir. Þar má nefna samvinna heimahjúkrunar og heimaþjónustu, samvinnu ungbarnaverndar og leikskóla, samvinnu heilsugæslu og félagsþjónustu og loks samvinnu skóladeildar, félagsþjónustu og heilsugæslu um málefni barna með hegðunar- og þroskaraskanir. Hún rakti helztu hindranir þverfaglegs samstarfs og hélt því fram að aukin samvinna væri allra gróði svo fremi að þarfir skjólstæðings væru í fyrirrúmi.

 Glærur frá fyrirlestri Margrétar

* * *

Sveinn Magnússon  yfirlæknir Heilbrigðisráðuneytisins flutti málþinginu ávarp Guðlaugs Þórs Þórðarsonar heilbrigðisráðherra.

 'Avarp ráðherra flutt af Sveini Magnússyni

* * *

Kari Killén professor emerita frá Norwegian Institute of Social Research flutti erindi, er nún nefndi The relevance of attachment theory and research for prevention og mun úrdráttur úr því birtast síðar.

 

* * *

Linn Getz trúnaðarlæknir Landspítalans og dósent við háskólann í Þrándheimi flutti fyrirlestur sem hún kallaði Skynjun, heili, boðefni, heilsa: Ný þekking um “nýja barnið.”Boðskapur hennar var sá, að líkaminn væri ekki líffræðileg ,,vél” og að upplifanir okkar, túlkun á þeim og tengsl við aðra virðist hafa djúpstæð áhrif á líkama okkar, alveg niður á lífeðlis- og lífefnafræðilegt plan. Hún rakti niðurstöður margra nýrra rannsókna, sem hafa sýnt hvernig tilvistarleg lífsskilyrði geta haft áhrif á þroska heilans og leiða til sjúkdóma og atferlisröskunar. Lagði hún áherzlu á mikilvægi þess að reyna að fyrirbyggja óæskilega þróun, en væri skaðinn skeður, benti margt til að styrkjandi samskipti bæti ástandið og það einnig frá líffræðilegu sjónarmiði. Hún rakti nokkuð áhrif tvíhyggjunnar á þróun og hugsunarhátt læknisfræðinnar, sem nokkuð hefði heft skilning á mannlegu eðli og heilsufari fólks. Hún rakti vaxandi fróðleik um sambandið milli lífsaðstæðna og tengsla fólks annarsvegar og truflana í líffræðilegri starfsemi og þróunar sjúkleika hinsvegar og sýndi hún fram á, hvernig streitufræðin hjálpuðu okkur að skilja þetta samband. Húmanistisk viðhorf í læknisfræðinni sagði hún hafa verið sett skör neðar hinum náttúruvísindalegu og bíómedisínsku, en með því að skilja tengsl heila, taugakerfis, innkirtlastarfsemi og ónæmiskerfis væri auðveldara að átta sig á áhrifum tilvistarlegar reynslu á líkamsstarfsemina. Með þessu móti væri líka auðveldara að skilja af hverju sumir halda heilsu við mjög erfiðar aðstæður en aðrir ekki, en um það fjallar m.a. samræmisvitundarkenning Antonovskys, þar sem vissa einstaklingsins um að í aðstæðum hans sé fólginn tilgangur, þær séu skiljanlegar og viðráðanlegar hjálpi honum að ráða við streituna og komast af. Hún rakti dæmi um lífsreynslu og upplifanir, sem virðast hafa bein áhrif á allan líkamann, m.a. á þroska heilans, ýmist til góðs eða ills: Tiltrú eða svik, félagslegt skjól og vaxtarmöguleikar eða einmanaleiki og vanræksla, virðing og reisn eða vanvirðing, vernd og umhyggja eða afskiptaleysi og höfnun, stolt og heiður eða niðurlæging, sektarkennd og skömm. Þessi dæmi væru studd vísindalegum rökum með aðferðum raunvísindalegrar rannsóknartækni s.s. segulómunar heilans og boðefnarannsóknum. Hún vitnaði í Jack P. Shonkoff, amerískan prófessor í barnalækningum, er sagði: ,,Samspil gena, upplifana og reynslu mótar arkitektúr heilans. Samskipti barns við mikilvæga fullorðna í lífi þeirra vega sérstaklega þungt í þessu ferli.”Sýnt hefur verið fram á, að skaðleg streita móður á meðgöngu eykur líkur á að barnið komi til með að eiga við tilfinningalegan og greindarfarslegan vanda að etja síðar, s.s. ofvirkni með athyglisbresti, kvíða og seinkaðan talþroska og jafnvel geðklofa síðar á ævinni. Andlegt ofbeldi í formi niðurlægjandi orðalags foreldra virðist eitt og sér getað skaðað þroska heilans og hefur það reynzt mælanlegt með segulómskoðunum. Hún rakti niðurstöður ACE-(Adverse Childhood Experience)-rannsóknarinnar sem sýnir beina fylgni milli neikvæðrar lífsreynslu í bernsku og hættunnar á vanheilsu og sjúkleika í framtíðinni. Er þar bæði um að ræða algengustu geðsjúkdóma og sjúkleika er hljótast af sjálfskaðandi líferni, s.s. reykingum, ofáti, alkóhólmisnotkun og vímuefnanotkun, kyrrsetum og bráðlæti og fjöllyndi í kynlífi. Sé leiðrétt fyrir áhrifum lífsstíls og þekkra líffræðilegra áhættuþátta stendur samt eftir aukin hætta á blóðþurrðarsjúkdómum, sýkingum og langvinnum lungnasjúkdómum. Áföll í æsku virðast meira að segja geta haft neikvæð heilsufarsáhrif á næstu kynslóð. Æ fleiri rannsóknir styðja þessar niðurstöður. Góð og uppbyggileg mannleg samskipti sem og ýmsar tegundir geðbætandi meðferðar breyta efnaskiptum og formgerð heilans og hafa þannig áhrif á heils, tauga-, hormóna- og ónæmiskerfi og er þetta líka mælanlegt með segulómun og lífefnarannsóknum. Hún vitnaði að lokum í forvarnastefnuskrá norskra heimilislækna: ,,Grunnurinn að læknisfræðilegu forvarnarstarfi er að skapa samfélag þar sem fólk nýtur mannlegrar reisnar og læri þar með að virða sjálft sig og aðra. Það er einkum mikilvægt frá heilsuverndarsjónarmiði að trygga börnum öruggt uppeldi í nærveru ábyrgra fullorðinna.” Hún sagði þennan boðskap allan vera byltingarkenndan innan hátæknilæknisfræðinnar en þetta hefði hinsvegar lengi verið vitað á Akureyri og því lýsti hún fullum stuðningi við hugmyndafræði ,,nýja barnsins.”

Glærur frá fyrirlestri Linn Getz   (tekur smá stund að opnast vegna fjölda mynda)

* * *

Nokkrir utanaðkomandi aðilar voru fengnir til að miðla reynslu sinni að ,,nýja barns” vinnulaginu og hliðstæðri nálgun og var mat þeirra mjög samhljóma áliti heimamanna.

 

Gerður Árnadóttir heimilislæknir í Garðabæ rakti ferli ,,nýja barns” vinnulagsins í Heilsugæzlunni í Garðabæ, en því hefur beitt þar frá 2001 við almennra ánægju hlutaðeigandi. Virðist nálgun þeirra í Garðabænum vera mjög svipuð og á HAK en þar sinnir þó fjölskylduráðgjafinn almennri félagsráðgjöf og stuðningi við ungar mæður og fjölskyldur með fötlun eða fjárhagsvanda trúlega í meira mæli en á HAK. Á liðnum 7 árum hafa 469 konur tekið þátt í verkefninu eða 88% þeirra, sem þar hafa verið í mæðraskoðun. 226 þeirra eða 48 % hittu fjölskylduráðgjafa vegna félagslegra réttindamála (62%) eða vanlíðanar eða erfiðleika í fjölskyldu (38 %). Eftir fæðingu hafa 46 konur komið til viðtals við fjölskylduráðgjafann og höfðu 26 þeirra verið annars staðar í mæðravernd. Af þessum konum voru 5% metnar í brýnni þörf fyrir stuðnings- og meðferðarúrræði en 36% til viðbótar voru taldar þurfa aukinn stuðning af einhverju tagi. Allir læknar stöðvarinnar hafa verið jákvæðir líkt og aðrir þátttakendur í verkefninu og telja þeir vinnulagið efla vitund um andlega líðan og félagslegar aðstæður fjölskyldna og varpa annarri sýn á stöðu fólks og vera tækifæri til upplýsingaöflunar sem nýtist í starfi með einstaklingi og fjölskyldu. Hin fjölfaglega nálgun efli þekkingu og reynslu liðsheildarinnar og réttindamálum sé betur sinnt. Framlagi hins nýja fagaðila, fjölskylduráðgjafans, til hinnar þverfaglegu samvinnu er fagnað í Heilsugæzlunni í Garðabæ.

 Glærur frá fyrirlestri Gerðar

Hrund Sigurðardóttir sálfræðingur við Heilbrigðisstofnun Suðurnesja sagði frá forvarnar- og meðferðarteymi HSS og sveitarfélaga á Suðurnesjum, sem hefur starfað frá 2005 og telur tvo sálfræðinga og einn félagsráðgjafa og leggur HSS til tvö stöðugildi og aðstöðu en sveitarfélögin leggja til eitt stöðugildi. Tilgangurinn er að efla fjölskylduheilbrigði með áherslu á tengsl og grípa inn í á fyrstu stigum vandans til að fyrirbyggja erfiðleika síðar meir og koma í veg fyrir eða minnka líkur á að barn þurfi á sérþjónustu að halda í framtíðinni. Veitt er ráðgjöf, meðferð og eftirfylgd til barna og/eða fjölskyldna í samstarfi við aðrar fagstéttir innan og utan stofnunarinnar og lögð er áherzla á samstarf við félagsþjónustur og fræðsluskrifstofur á svæðinu. Markhóparnir eru börn undir 11 ára aldri og er vinnulagi ,,nýja barnsins” beitt á fjölskyldur barna þriggja ára og yngri en en gagnvart þeim eldri er um að ræða meðferð fyrir börn með sálfélagslegan vanda og fjölskyldur þeirra. Í stað lækna gera ljósmæður skimunarviðtölin í mæðravernd en í ungbarnavernd er skimað fyrir fæðingarþunglyndi þegar barnið er 9 vikna gamalt. Náin samvinna er milli mæðraverndar, ungbarnaverndar og fæðingadeildar. Eftirspurn eftir þjónustu er mikil og hefur fjöldi tilvísana aukist ár frá ári. Allir samstarfsaðilar geta vísað málum beint til teymis og einnig getur fólk haft samband sjálft. Þá er rekin HAM-meðferð fyrir mæður með fæðingarþunglyndi og meðferðarnámskeið fyrir börn sem byggir á HAM í samvinnu við Fræðsluskrifstofu Reykjanesbæjar. Einnig eru haldin námskeið fyrir verðandi foreldra.

Glærur frá fyrirlestri Hrundar

 

Már V. Magnússon sálfræðingur við Heilsugæzlustöðina í Grafarvogi sagði frá meðferðarteymi við stöðina, sem starfað hefur frá 2005. Tilgangur teymisins er að

efla heilsugæsluþjónustu á geð- og félagssviði fyrir börn og fjölskyldur þeirra og vera fyrirbyggjandi og aðgengileg nærþjónusta. Teymið samanstendur af félagsráðgjafa, iðjuþjálfa og sálfræðingi auk heimilislæknis viðkomandi fjölskyldu, sem miðlar erindum til teymis. Markmið teymisins eru að sinna meðferð, ráðgjöf og eftirfylgd barna og fjölskyldna þeirra í samstarfi við aðrar fagstéttir innar stöðvar og utan og efla færni og virkni barna og fjölskyldna þeirra í daglegu lífi og að veita almenna og uppeldislega ráðgjöf. Þá koma meðlimir teymsins að ýmsu fræðslustarfi innan og utan heilsugæzlustöðvarinnar. Beitt er hefðbundinni meðferð í samræmi við kenningar Bowlbys og Watts um mikilvægi góðra tengsla og umhyggju. Málum fjölgaði úr 112 árið 2005 í 234 2007 og á sama tíma hækkaði meðalaldur barnanna úr 7,4 árum í 8,9. Drengir eru heldur fleiri en stúlkur. Aðeins rúmur helmingur barnanna bjó hjá báðum foreldrum, sem er talsvert lægra en meðaltalið í Reykjavík. Meðferðin byggist aðallega á viðtölum á heilsugæzlustöðinni en einnig fara meðlimir teymisins í vitjanir og nota símann auk þess sem hópmeðferð er beitt. Líkt og í Garðabæ virðast læknar mjög ánægðir með samstarfið við fagaðila teymisins og telja þessa nýung og þverfaglega samstarf hafa gjörbreytt aðkomu heilsugæzlustöðvarinnar að geð- og sálfélagslegum vandamálum barna og fjölskyldna þeirra. Þessi nærþjónusta virðist hafa haft jákvæð áhrif á samstarf annarra faghópa inn á stöðinni í forvörnum og heilsuvernd barna.

Glærur frá fyrirlestri Más (tekur smá stund að opnast vegna fjölda mynda)

 

Guðrún Sigurðardóttir deildarstjóri Fjölskyldudeildar Akureyrarbæjar sagði frá þeirri þverfaglegu nálgun og samvinnu, sem hér hefur verið leitast við að innleiða á liðnum árum, en Heilsugæzlustöðin á Akureyri er rekin af Akureyrarbæ og því ein af deildum bæjarkerfisins.  Hún rakti kosti samþættra þjónustukerfa forsendur samstarfs ólíkra deilda og þjónustukerfa og nefndi sérstaklega til sögu skýr hlutverk, gagnkvæma þekkingu á stofnunum og viðfangsefnum, raunhæfar væntingar og traust. Þá rakti hún sögu og verkefni hins sameiginlega fagráðs fjölskyldudeildar og HAK en markmiðin með stofnun þess voru m.a. að gera vinnslu mála markvissari með því að leggja upp sameignleg markmið, miðla upplýsingum, koma í veg fyrir tvíverknað og koma í veg fyrir að málum sé ekki sinnt. Niðurstaða hennar var að samstarf væri lykilatriði, bæði faghópa og kerfa og það þyrfti að vera skipulagt og byggt á þekkingu og trausti. Það skili árangri fyrir notandann í formi bestu mögulegu lausna og þéttari þjónustu og fyrir þjónustukerfin bæði faglega og fjárhagslega

 Glærur frá fyrirlestri Guðrúnar

* * *

Dagskránni lauk svo með pallborðsumræðum þar sem þátttakendur voru Hulda Guðmundsdóttir, Jóhann Ágúst Sigurðsson, Sigfríður Inga Karlsdóttir, Sigmundur Sigfússon, Margrét Björnsdóttir og Þórir V. Þórisson.

 

Þáttakendur í pallborðinu voru sammála um mikilvægi fjölskylduverndar í heilsugæslu og lýstu jákvæðu viðhorfi til þeirra starfsaðferða sem hér hafa mótast. Fram kom að á vegum Heilbrigðisráðuneytisins er unnið að aðgerðaáætlun í þágu unglinga og barna og að áherslur væru þar mjög í þessum anda. Nokkuð var rætt um hvernig geðrænn vandi á fullorðinsárum endurspeglar oft áföll og truflun á frumtengslum í bernsku og hið mikla forvarnargildi þess að hlú betur að börnum og fjölskyldum þeirra. Fram kom sú ábending að til að nýta betur möguleika frumþjónustunnar til  geðverndar þyrfti kannski að endurmeta starfsaðferðir og forgangsröðun. Bent var á að trúlega mætti kynna ráðamönnum betur en gert hefur verið þær vinnuaðferðir og hugmyndafræði sem hér hefur verið í mótun til að tryggja framhald og frekari framþróun. Fulltrúi ráðuneytisins lét þess getið að óskir heimamanna um aukin stöðugildi í fjölskylduráðgjöf yrðu til umfjöllunar þegar þjónustusamningur Akureyrarbæjar og ríkis yrði endurskoðaður um næstu áramót. Jafnframt var bent á nauðsyn þess að endurskipuleggja starfsemi sem þessa, þegar erfiðleikar steðjuðu að.

 

* * *

 

Heilsugæzlustöðin á Akureyri færir Huldu Guðmundsdóttur sérstakar þakkir fyrir handleiðslu og  aðstoð við undirbúning málþingsins.

 

Skynjun, heili, boðefni, heilsa: Ný þekking um “nýja barnið.”

Nýja barnið - reynsla okkar: Gerður Á. Árnadóttir, Helga Ágústsdóttir og Svava Gústafsdóttir.

Máttur tengslanna: Guðrún Sigurðardóttir.

Máttur tengslanna: Hjálmar Freysteinsson.

Forvarnar- og meðferðarteymi HSS og sveitarfélaga á Suðurnesjum: Hrund Sigurðardóttir.

Máttur tengslanna: Karólína Stefánsdóttir.

Máttur tengslanna: Margrét Guðjónsdóttir.

Nýja barnið tvítugt: Már V. Magnússon.

Lífsins straumar: Þuríður Hjálmtýsdóttir.