Nýja barnið

NÝJA BARNIÐ

Nýja barnið var nafn á sérstöku þróunarverkefni í fjölskylduverndarátaki heilsugæslustöðvarinnar, sem unnið var á árunum 1992-1997. Nú hefur vinnulag þróunarverkefnisins verið tekið upp í daglegu forvarnastarfi á HAK sem viðbót við þá hefðbundnu mæðra- og ungbarnavernd, sem unnin er á heilsugæslustöðvum um allt land. Þarna er um að ræða samstarf heimilislækna, mæðraverndar, ungbarnaverndar, fjölskylduráðgjafar og skólaheilsugæslu. Þetta vinnulag byggir á þeirri hugmyndafræði, að takist foreldrum að mynda heilbrigð og sterk tilfinningatengsl við barnið strax eftir fæðingu sé mun auðveldara að veita því þá félagslegu örvun og öryggiskennd, sem er nauðsynleg til að það fái þroskað samskiptahæfni sína sem er barninu afar mikilvægt veganesti út í lífið.

Nýjar rannsóknir í heila- og taugavísindum staðfesta að hin fyrstu tengsl hafa afgerandi áhrif á framtíðarheilbrigði.

Sýnt hefur verið fram á, að áföll og óuppgerðar tilfinningar hjá verðandi móður/foreldrum eða erfið uppeldisleg kjör, svo sem vanræksla eða ofbeldi, séu miklir áhættuþættir, sem hindra eðlileg tengsl móður/fjölskyldu og barns og geta valdið varanlegu tilfinningalegu eða líkamlegu heilsutjóni fyrir barnið ef ekkert er að gert. Meðgangan er mikilvægt þroskaferli, einkum fyrir foreldra og fjölskyldu, þar sem ákveðið rót getur komist á tengsl og tilfinningar, einkum og sér í lagi ef foreldrar hafa upplifað áföll eða erfiðleika í uppvexti sínum eða á fullorðinsárum. Meðgangan býður upp á einstæða möguleika að vinna úr óleystum tilfinningavandkvæðum fortíðarinnar.

Á fyrri hluta meðgöngu er öllum konum boðið að eiga trúnaðarsamtal við heimilislækni sinn og saman reyna þau að átta sig á því, hvort einhverjir áhættuþættir séu til staðar eða hvort æskilegt sé að veita konunni sérstakan stuðning eða aðstoð við úrvinnslu vandamála. Ljósmóðir konunnar og fjölskylduráðgjafi mynda ásamt hjúkrunarfræðingi ungbarnaverndar stuðningsteymi eftir því sem við á til að ofangreindum markmiðum verði náð og er þeim stuðningi fram haldið svo lengi sem þurfa þykir. Skólahjúkrunarfræðingur tekur svo í fyllingu tímans við af hjúkrunarfæðingi ungbarnaverndar, ef stuðnings reynist þörf eftir upphaf skólagöngu.

Þetta vinnulag byggir á þverfaglegri samvinnu, þar sem aðilar teymisins styðja hver annan. Þjónustuþættirnir, sem hafa verið í boði, eru eftirtaldir:

 1. Fyrirbyggjandi fræðsla á námskeiðum og í viðtölum fagfólks við verðandi foreldra, sem miða að því að auka foreldrahæfni og efla alhliða heilbrigði fjölskyldunnar.
 2. Aukinn stuðningur ljósmóður, hjúkrunarfræðings eða heimilislæknis.
 3. Tilfinningaleg úrvinnsla, greining, sjálfsstyrking eða meðferð hjá fjölskylduráðgjöfum (fjölskyldufélagsráðgjafi, sálfræðingur og fjölskyldumeðferðarfræðingur).
 4. Tilvísun eða samstarf við aðrar stofnanir eða fagaðila, s.s. fæðingadeild, barnadeild og geðdeild SAk og Fjölskyldudeild Akureyrarbæjar.

Niðurstöður af greiningu áhættuþátta eru, að um 30-40% barnshafandi kvenna hafa þörf fyrir aukinn stuðning, áfallaúrvinnslu eða einhver meðferðarúrræði.

Þróunarverkefnið „Nýja barnið" fékk árið 1997 viðurkenningu Evrópudeildar WHO sem gott og einstakt verkefni á sviði mæðra-, barna- og fjölskylduverndar.

Árið 2000 gaf Landlæknisembættisins út bók um þróunarverkefnið og sem nefnist: Nýja barnið, þróunarverkefni Heilsugæslustöðvarinnar á Akureyri. Hugmyndafræði - aðferðir - árangur.

Aðalhöfundar eru A. Karólína Stefánsdóttir og Hjálmar Freysteinsson verkefnisstjórar og Hulda Guðmundsdóttir handleiðandi. Meðhöfundar eru: Dr. Björg Bjarnadóttir sálfræðingur, Guðfinna Nývarðsdóttir heilsugæsluhjúkrunarfræðingur, Magnús Skúlason geðlæknir, Pétur Pétursson yfirlæknir, Sigfríður Inga Karlsdóttir ljósmóðir og lektor og Sigmundur Sigfússon geðlæknir.

Auk lýsingu á hugmyndafræði og starfsaðferðum er í bókinni fræðilegur kafli um hina sálrænu meðgöngu, þróun tilfinningaþroska og leiðir til að efla foreldrahæfni. Gerð er grein fyrir mikilvægi heilbrigðrar innlifunar (empathy) og drepið á afleiðingar þess ef eitthvað fer úrskeiðis í eðlilegu þroskaferli, hverjir eru helstu áhættuþættir og úrræði.

Bókin er uppseld í bili en hægt að nálgast hana rafrænt hér

 

Aðrar aðgengilegar bækur fyrir foreldra og alla sem vilja styrkja sig og bæta samskiptin:

 • Fyrstu 1000 dagarnir – barn verður til

   • höfundur:  Sæunn Kjartansdóttir 

 • Í nándinni – innlifun og umhyggja

   • höfundur:  Guðbrandur Árni Ísberg

 • Árin sem enginn man – áhrif frumbernsku á börn og fullorðna

   • höfundur:  Sæunn Kjartansdóttir