Góð úttekt Embættis landlæknis á heilsugæslu HSN

Embætti landlæknis birti nýlega skýrslu um hlutaúttekt á heilsugæslu Heilbrigðisstofnunar Norðurlands sem fór fram í júní 2017. Óhætt er að segja að HSN fær í úttektinni prýðilega umsögn þar sem stefnumörkun, stjórnun og vinnubrögð og gæðastarf fær hæstu einkunn.
Gerð er athugasemd við húsnæði heilsugæslunnar á Akureyri og birtingu árangursvísa starfseminnar.
Vert er að nefna það að á ársfundi HSN sem haldinn verður þann 21. september í Hofi verður gefin út stefna og starfsáætlun stofnunarinnar sem mun innihalda árangursvísa og markmið til ársins 2019.
Þá verður kynnt stefna HSN varðandi framtíðaruppbyggingu heilsugæslunnar á Akureyri.
En látum skýrsluna tala fyrir sig, meðfylgjandi eru niðurstöður og samantekt úr skýrslunni ásamt tengli á skýrsluna í heild;

SAMANTEKT

Haustið 2014 sameinuðust heilbrigðisstofnanir á Norðurlandi í eina stofnun, Heilbrigðisstofnun Norðurlands (HSN). Í stefnumótun nýrrar stofnunar kemur fram að HSN telur hlutverk sitt vera að stuðla að bættu heilbrigði íbúa á Norðurlandi með því að veita samfellda, heildstæða og aðgengilega heilbrigðisþjónustu. Skipurit sameinaðrar stofnunar og skipulag starfseminnar er á innri vef sem allir starfsmenn hafa aðgang að. Frá sameiningu hefur áhersla verið lögð á að vinna að sameiningarferlinu og stefnumótun og því ekki gefist tími til að innleiða sérstaka aðferðafræði í stjórnun, s.s. straumlínustjórnun (e. lean management) á HSN. Stefnt er að því að hefja slíka vinnu næsta haust. Stefnumótun HSN gengur fyrst og fremst út á að bæta gæði og öryggi þjónustunnar.
Á HSN starfar sérstakt gæða- og öryggisráð sem er m.a. ráðgefandi til stjórnenda og annars starfsfólks varðandi gæðamál. Ekki eru birtar niðurstöður árangursvísa enn sem komið er, til stendur að fylgjast með ákveðnum árangursvísum og munu þeir verða aðgengilegir öllu starfsfólki.
Tilraunaverkefni um þjónustukannanir stendur yfir í samvinnu við Embætti landlæknis á heilsugæslu HSN Sauðárkróki og nýlokið er þjónustukönnun á Akureyri en niðurstöður liggja ekki fyrir.
Heilsugæsla HSN hefur á að skipa hæfu starfsfólki, aðgengi að læknis- og hjúkrunarþjónustu er yfirleitt gott, þó getur biðtími eftir föstum lækni á Akureyri verið langur. Um skipulagða þverfaglega teymisvinnu er ekki að ræða nema á heilsugæslunni á Húsavík og að hluta til á Akureyri.

Húsnæði heilsugæslu HSN á Akureyri er mjög takmarkandi fyrir starfsemina og uppfyllir ekki nútímakröfur sem gerðar eru til húsnæðis heilsugæslustöðva.

Samantekið álit:

1. Stefnumörkun. Gott

2. Stjórnun. Gott

3. Vinnubrögð og gæðastarf. Gott

4. Húsnæði, mönnun og starfsaðstaða. Umbóta þörf á húsnæði heilsugæslu Akureyrar

5. Árangur starfsemi. Umbóta þörf

 

MAT EMBÆTTIS LANDLÆKNIS

Ljóst er að sameining HSN hefur tekist vel og að góð sátt virðist vera um hana bæði meðal starfsfólks og þjónustuþega. Stofnunin hefur sett sér metnaðarfulla framtíðarsýn fyrir árið 2019.
Í úttektinni kom fram hjá starfsfólki að það lítur á sig sem starfsmenn sameinaðrar stofnunar HSN en jafnframt starfsmann sinnar starfsstöðvar þar sem hver starfsstöð heldur sínum sérkennum.
Starfsfólki finnst betri aðgangur að upplýsingum um starfsemi sameinaðrar stofnunar og almenn ánægja er með faghópana og námskeið sem í boði eru fyrir starfsfólk.
Mönnun lækna er ákveðið vandamál, sérstaklega á heilsugæslustöðinni á Blönduósi þar sem verktakalæknar sinna læknisþjónustu til skiptis. Þetta rót á læknum hefur mælst illa fyrir hjá sumum notendum þjónustunnar. Hins vegar tíðkast slíkt fyrirkomulag sums staðar en krefst mjög skilvirkrar og vel skipulagðrar teymisvinnu, þannig að sjúklingur tilheyri ákveðnu teymi sem er sameiginlega ábyrgt fyrir því að hann fái viðeigandi þjónustu. Um slíka þverfaglega teymisvinnu er ekki að ræða á heilsugæslu HSN á Blönduósi. Þjónusta vakthafandi læknis er ekki sambærileg við þjónustu heimilislæknis eða heilsugæsluteymis sem notandi þjónustunnar þekkir og hefur myndað trúnaðarsamband við.
Fram kom í viðtölum við starfsfólk HSN að efla þyrfti sérhæfða þjónustu við þá sem glíma við geðheilsuvanda. Þá þarf að huga að eflingu heilsugæslu eldri borgara, til dæmis í takt við það sem gert er á heilsugæslunni á Akureyri.

Þjónustukönnun er nýlokið á Akureyri en niðurstöður liggja ekki fyrir og yfirstandandi er þjónustukönnun í samvinnu við Embætti landlæknis á heilsugæslu HSN Sauðárkróki. Þær niðurstöður sem liggja fyrir úr þeirri könnun sýna almenna ánægju með þjónustuna þar. Heilsugæsla HSN hefur á að skipa hæfu starfsfólki, aðgengi að læknis- og hjúkrunarþjónustu er yfirleitt gott, þó getur biðtími eftir föstum lækni á Akureyri verið langur. Skipulögð teymisvinna er til staðar á Húsavík sem mætti vera fyrirmynd á Blönduósi. Á öðrum starfsstöðvum HSN er skipulag samvinnunnar með öðrum hætti og miðast við aðstæður á hverjum stað. Húsnæði heilsugæslu HSN á Akureyri er mjög takmarkandi fyrir starfsemina og uppfyllir ekki nútímakröfur sem gerðar eru til húsnæðis heilsugæslustöðva.

ÁBENDINGAR EMBÆTTIS LANDLÆKNIS

  • · Ráða bót á mönnun lækna. Embætti landlæknis hvetur stjórnendur HSN til að endurskoða mönnun lækna á Blönduósi með það að leiðarljósi að tryggja samfellu í meðferð.
  • · Efla geðþjónustu. Embætti landlæknis hvetur stjórnendur HSN til að efla og skipuleggja markvisst sérhæfða þjónustu við þá sem glíma við geðheilsuvanda á öllum starfsstöðvum stofnunarinnar.
  • · Efla heilsugæslu eldri borgara. Embætti landlæknis hvetur stjórnendur HSN til að efla og skipuleggja markvisst heilsugæslu eldri borgara á öllum starfsstöðvum sínum.

Skýrslan í heild:

http://www.landlaeknir.is/servlet/file/store93/item32783/Sk%C3%BDrsla%20hluta%C3%BAttektar%20%C3%A1%20heilbrig%C3%B0isstofnun%20Nor%C3%B0urlands%20(HSN).pdf