HSN breytir fyrirkomulagi á þjónustu heilsugæslunnar á Akureyri til að tryggja órofinn rekstur og þjónustu við almenning

Heilbrigðisstofnun Norðurlands (HSN) tilkynnir um breytt fyrirkomulag á þjónustu heilsugæslunnar á Akureyri sem lið í aðgerðum til að tryggja órofinn rekstur og þjónustu við almenning. Tekið verður við bókunum um viðtöl og símtöl við lækni eða hjúkrunarfræðing, en í auknum mæli verður hringt í skjólstæðinga og athugað hvort mögulegt sé að leysa erindin í síma. Skjólstæðingar eru einnig beðnir um að panta tíma ef kostur er fyrir komu á vaktþjónustu heilsugæslunnar. Með þessum aðgerðum er vonast til að hægt sé að fækka komum á heilsugæslustöð og þar með að draga úr smithættu.

Jón Torfi Halldórsson, yfirlæknir á heilsugæslunni á Akureyri

„Margir hafa smitast af Covid19 á stuttum tíma á svæðinu í þessari bylgju faraldursins, sérstaklega á Akureyri og Dalvík. HSN stendur fyrir allri sýnatöku á Norðurlandi, en um þessar mundir eru um 2000 sýni tekin í hverri viku. Vegna þessa og annarra verkefna tengdum Covid19 höfum við því orðið að forgangsraða þjónustu okkar á heilsugæslunni töluvert og hugsa hlutina upp á nýtt. Það er augljóst að þetta hefur skapað gríðarlegt álag á starfsfólk sem að auki sinnir allri almennri heilsugæsluþjónustu. Starfsfólk hefur sýnt mikinn dug í sínum störfum, verið sveigjanlegt og lausnamiðað. Þessi breyting á fyrirkomulagi á þjónustu er eitt dæmi um það og liður í að geta tryggt þjónustu við almenning.”

Minnt er á samskipti og netspjall á Mínum síðum á heilsuvera.is þar sem hægt er að fá ráðgjöf, sem og í vaktsíma lækna í síma 1700 utan dagvinnutíma. Ávallt skal hringja í 112 fyrir neyðaraðstoð.

HSN bendir fólki einnig á að kynna sér upplýsingar og leiðbeiningar á vef Embættis landlæknis www.landlaeknir.is um stöðu mála, en þær geta breyst frá degi til dags.