Hreyfiseðill

Hreyfiseðill er meðferðarúrræði sem læknir skrifar upp á í samráði við skjólstæðing og er ávísun á hreyfingu eftir forskrift. Einstaklingi er vísað til hreyfistjóra, sem er menntaður sjúkraþjálfari og útbýr hreyfiáætlun í samráði við viðkomandi. Einstaklingurinn framfylgir áætluninni upp á eigin spýtur en undir eftirliti hreyfistjóra sem fylgist með árangri og meðferðarheldni.

Notkun hreyfiseðla er afar aðgengileg og hentug aðferð  til að bæta heilsu landsmanna og draga úr kostnaði heilbrigðisþjónustunnar. Sýnt hefur verið fram á að með markvissri hreyfingu megi draga úr lyfjanotkun, læknaheimsóknum og innlögnum.

Læknir vísar skjólstæðingnum til hreyfistjóra Hreyfiseðilsins sem hefur aðsetur á Heilsugæslustöðinni. Í komunni til hreyfistjórans eru möguleikar og geta til hreyfingar ræddir og metnir í sameiningu og 6 mínútna göngupróf framkvæmt. Hreyfistjórinn aflar nauðsynlegra upplýsinga frá skjólstæðingnum og velur þau úrræði sem henta viðkomandi í samráði við hann og útbýr hreyfiáætlun. Hreyfiáætlunin byggir á fagþekkingu, ástandi og getu einstaklingsins. Hreyfistjórinn kennir skjólstæðingnum að nota tölvuforrit til skráningar þegar hreyfing er stunduð sem auðveldar markvissa eftirfylgd með þátttakanda.