Fjáröflun í tilefni 60 ára afmælis HSN á Blönduósi

HSN á Blönduósi fagnaði  60 ára afmæli sínu nýverið og sýndu Húnvetningar hug sinn til stofnunarinnar á myndarlegan hátt en starfsfólk HSN stóð þá fyrir fjáröflunarbingói.
Tilgangur þess var að afla fjár til kaupa á nýjum sjúkrarúmum þar sem stærstur hluti þeirra var orðinn mjög gamall og einungis þrjú rafmagnsrúm.
Leitað var styrkja hjá fyrirtækjum og einstaklingum sem brugðust vel við, svo mikið fékkst af góðum vinningum á bingóið, m.a. rausnarlegt framlag frá N1 eða 60.000 krónur.
Góð mæting var á bingóið og náðist þar að safna fyrir einu fullbúnu sjúkrarúmi en auk þess gaf ónafngreindur einstaklingur eitt rúm. Hollvinasamtök HSN á Blönduósi gáfu einnig eitt rúm og til að að koma til móts við framtak starfsmanna þá ákvað framkvæmdastjórn HSN að kaupa þrjú rúm til viðbótar.
Það er því von á sex nýjum og fullbúnum sjúkrarúmum á sjúkradeild HSN á Blönduósi á þessu afmælisári stofnunarinnar.
Í lok fjáröflunarbingósins var gamalt sjúkrarúm boðið upp og ágætri samkomu var síðan lokið með kaffiveitingum.
Öllum velunnurum HSN á Blönduósi eru færðar kærar þakkir fyrir veittan stuðning og velvild.


Fjáröflunarbingó Húnvetninga