Heilsugæsla skólabarna er framhald af ung- og smábarnavernd. Skólaheilsugæslan leitast við að efla heilbrigði nemenda og stuðla að vellíðan þeirra. Starfsfólk skólaheilsugæslu vinnur í náinni samvinnu við foreldra/forráðamenn, skólastjórnendur, kennara og aðra sem koma að málefnum nemenda. Skólahjúkrunarfræðingur situr í nemendaverndarráði. Farið er með allar upplýsingar sem trúnaðarmál.
Fyrirkomulag:
Heilsugæslustöðvar annast heilsugæslu í skólum skv.lögum nr. 97/1990
Hjúkrunarfræðingar heilsugæslunnar annast skólaheilsugæsluna. Þeir hafa fasta viðtalstíma fyrir nemendur sem auglýstir eru í skólunum.
Föst samskipti við hjúkrunarfræðinga við nemendur:
1. bekkur. Hæðar og þyngdarmæling , sjónpróf og heyrnarpróf
2. bekkur. Sjónpróf.
4. bekkur. Hæðar og þyngdarmæling og sjónpróf.
7. bekkur. Hæðar- og þyngdarmæling, sjónpróf og einnig er prófað litarskyn. Bólusett er gegn mislingum, hettusótt og rauðum hundum. Jafnframt eru stúlkur bólusettar gegn veirum sem geta valdið leghálskrabbameini.
9. bekkur. Hæða- og þyngdarmæling, sjónpróf, heyrnarpróf og blóðþrýstingsmæling. Bólusett er gegn mænusótt, barnaveiki og stífkrampa.
Einnig fer fram fræðsla um svefn, hvíld, mataræði, vöxt, þroska, samskipti, vináttu, kynþroska, getnaðarvarnir, kynsjúkdóma og fleira sem fellur til.