Um HSN Dalvík

 
UM HEILSUGÆSLUSTÖÐINA Á DALVÍK 
 Umdæmi Heilsugæslustöðvarinnar á Dalvík er Dalvíkurbyggð og Hrísey. Hún starfar samkvæmt lögum um heilbrigðisþjónustu 40/2007.
Hún er til húsa við Hólaveg á Dalvík.
 
 
Grunngildi 
UMHYGGJA
Við berum umhyggju fyrir sjúklingum, samstarfsmönnum og samfélaginu okkar. Við gerum það með því að sýna hjálpsemi, skilning og jákvæðni.
 
NÁND  
Starf okkar einkennist af nánd vegna þess að við erum hluti af samfélaginu og þekkjum persónulega hagi og þarfir sjúklinganna.
 
ALÚÐ  
Við sýnum alúð í starfi okkar með náungakærleika
 
FAGMENNSKA  
Við leysum verkefni okkar af fagmennsku með því að sýna þjónustulund, heiðarleika og kunnáttu.
 
Saga heilsugæslunnar á Dalvík
 
Árgerði, Dalvík  Gimli, Dalvík  Heilsugæslustöðin, Dalvík

Fyrsta læknastöðin á Dalvík var staðsett í Gimli. Það hús var byggt sem íbúðarhús árið 1932 af Baldvini Jóhannessyni sem seinna varð kaupfélagsstjóri. Húsið var vel byggt og stórt, það var fyrsta húsið á Dalvík sem byggt var steinsteypt og með flötu þaki.

Árið 1940 kaupir Stefán Guðnason læknir húsið, fram að því hafði læknabústaðurinn á Dalvík verið staðsettur í Árgerði, u.þ.b. 1 km sunnan við bæinn. Þar voru aðstæðurnar vondar og erfitt var að hola niður sjúklingum sem þurftu að vera undir læknishendi í lengri eða skemmri tíma. Hagkvæmara var að hafa læknisbústað sem hefði tvær sjúkrastofur sem grípa mætti til. Hreppurinn tók þessu vel og gekk inn í gerð samninga með Stefáni lækni. Einnig styrkti ríkissjóður kaup á eigninni.

Stefán Guðnason læknir og eiginkona hans Elsa Níelsína Sigrún Kristjánsdóttir bjuggu í húsinu til 1944 þegar þau flytjast til Akureyrar. Við tók Daníel Á. Daníelsson læknir sem bjó í húsinu með eiginkonu sinni Dýrleifu Friðriksdóttir á meðan þau komu sér upp húsi í Árgerði. Í Gimli hélt áfram að vera læknastofa og apótek til ársins 1981. Þá var opnuð ný heilsugæslustöð á Dalvík við Hólaveg 6 þar sem hún er starfrækt enn í dag, en nú undir merkjum Heilbrigðisstofnunar Norðurlands – Dalvík.

 

Starfandi yfirlæknar á Dalvík:

1908-1937: Sigurjón Jónsson

1938-1944: Stefán Guðnason

1945-1972: Daníel Á Daníelsson

1972-1982: Eggert Briem

1982-1992: Bragi Stefánsson

1992-1994: Þórir V. Þórisson

1994-1996: Bragi Stefánsson

1996-1998: Þórir V. Þórisson

1998-2000: Bragi Sigurðsson

2000-2016: Guðmundur Pálsson

2016-2017: Fjóla Björnsdóttir