Flugslysaæfing á Þórshafnarflugvelli

Flugslysaæfing var haldin á Þórshafnarflugvelli á fyrsta degi vetrar og komu að henni um 50 manns.
Æfingin var nokkuð umfangsmikil en sviðsett var brotlending 33ja sæta farþegavélar með 26 farþegum á norðurenda flugbrautarinnar og eldar kveiktir á nokkrum stöðum.
Flugslysaæfing á Þórshafnarflugvelli  Flugslysaæfing á Þórshafnarflugvelli

Blíðskaparveður var og ekkert sem minnti á veturinn því hlýtt var í veðri, um 14 stiga hiti og logn.
Flugslysaáætlun Þórshafnarflugvallar var fylgt á æfingunni með þátttöku allra viðbragðsaðila á svæðinu og frá nágrannasveitarfélögum og fór þar fram góð æfing í samhæfingu og björgunaraðgerðum.
Margir hópar komu þar að; læknir, hjúkrunarfólk og sjúkraflutningamenn auk björgunarsveita, lögreglu, slökkviliðs, starfsfólks Rauða krossins, flugvallarstarfsmanna og sjálfboðaliða. Einnig fulltrúar Almannavarna ríkisins og Isavia ásamt stuðningsaðilum frá Landsspítala og Landhelgisgæslan sendi þyrluna TF-Syn á vettvang. 
Á æfingunni reyndi á alla viðbragðsþætti; greiningu og aðhlynningu slasaðra, björgunar- og slökkviaðgerðir, leit og flutning sjúklinga, skráningu, fjarskipti og fleira. Nítján ungmenni í unglingadeild Björgunarsveitarinnar á Þórshöfn áttu stórt hlutverk í æfingunni en þau voru í hlutverki slasaðra og stóðu sig vel.

Hjúkrunarfræðingarnir Sórún Arney og Anna Lilja á Þórshöfn ásamt Sigurði Halldórssyni lækni, Sigrúnu G. Pétursdóttur frá LSH og björgunarsveitarmanni  Flugslysaæfing á Þórshafnarflugvelli

Æfingin tók rúma tvo tíma á flugvellinum og að loknum frágangi var rýnifundur í félagsheimilinu Þórsveri þar sem farið var yfir æfinguna og verkþætti. Þar kom fram að æfingin þótti vel heppnuð og samhæfing góð en á þessu fámenna svæði hefði verið þörf fyrir fleira fólk.
Isavia hefur yfirumsjón með flugslysaæfingum á landinu en þær eru haldnar reglulega á fjögurra ára fresti á öllum áætlunarflugvöllum landsins en síðasta æfing á Þórshafnarflugvelli var fyrir aðeins þremur árum.
Bátaæfing var einnig haldin áður en þyrlan hélt á brott  og voru þá átta björgunarsveitarmenn hífðir úr sjó.

Flugslysaæfing á Þórshafnarflugvelli  Flugslysaæfing á Þórshafnarflugvelli