Nýir yfirhjúkrunarfræðingar hjá HSN á Húsavík

Yfirhjúkrunarfræðingar á Hvammi, sjúkradeild og hjúkrunardeildinni Skógarbrekku:
Hildur Sveinbjörns…
Yfirhjúkrunarfræðingar á Hvammi, sjúkradeild og hjúkrunardeildinni Skógarbrekku: Hildur Sveinbjörnsdóttir, Ágústa Tryggvadóttir og Jóhanna Sigríður Kristjánsdóttir.

Hildur Sveinbjörnsdóttir hefur verið ráðin yfirhjúkrunarfræðingur á HSN-Húsavík, í Hvammi, Húsavík frá 15. maí 2018.
Hildur lauk B.Sc. námi í hjúkrunarfræði frá Háskóla Íslands árið 2007. Hún hefur lokið námskeiði í líknandi meðferð á meistarastigi í krabbameinshjúkrun auk þess að hafa lokið fjölmörgum styttri námskeiðum sem nýtast í starfi.
Hildur hefur fjölbreytta reynslu í öldrunarhjúkrun, fjölskylduhjúkrun og líknandi meðferð en hún hefur starfað í Sóltúni, í Hvammi, á HSN og á krabbameinslækningadeild Landspítala.

Ágústa Tryggvadóttir hefur verið ráðin yfirhjúkrunarfræðingur á sjúkradeild HSN-Húsavík frá 1. ágúst 2018. Hún útskrifaðist með B.Sc. gráðu í hjúkrunarfræði frá Háskólanum á Akureyri 2002.
Ágústa leggur stund á meistaranám við HA í  heilbrigðisvísindum með áherslu á stjórnun og mun ljúka diplómanámi þaðan í vor. Ágústa hefur fjölbreytta reynslu í hjúkrun en hún hefur hefur unnið á Húsavík frá útskrift; á legudeildum sjúkrahúss, í heilsugæslu og á göngudeildum auk þess sem hún var verkefnisstjóri í Ráðgjöf i reykbindindi um nokkurra ára skeið. Hún hefur gengt ýmsum nefndar- og trúnaðarstörfum á stofnuninni; verið fulltrúi starfsmanna í öryggisnefnd frá 2007, trúnaðarmaður hjúkrunarfræðinga frá 2009, fulltrúi stofnunar í öryggisráðum vegna framkvæmda á Bakka og Þeistareykjum og formaður jafnréttisnefndar HSN frá 2015.

Jóhanna Sigríður Kristjánsdóttir hefur verið ráðin yfirhjúkrunarfræðingur á hjúkrunardeildinni Skógarbrekku á HSN-Húsavík frá 1. ágúst 2018. Jóhanna lauk B.Sc. námi í hjúkrunarfræði frá Háskóla Íslands árið 2000 og meistaranámi í  heilbrigðisvísindum (MSc) með áherslu á tóbaksvarnir frá Háskólanum á Akureyri árið 2010.
Jóhanna hefur fjölbreytta reynslu í hjúkrun en hún hefur starfað á sjúkra- og hjúkrunardeildum sjúkrahúss, í heilsugæslu og sem ráðgjafi í Ráðgjöf í reykbindindi. Hún hefur umtalsverða stjórnunarlega reynslu; var hjúkrunarstjóri á hjúkrunar- og sjúkradeild í rúm 4 ár og verið verkefnastjóri í Ráðgjöf í reykbindindi og í öldrunarhjúkrun í mörg ár.
Jóhanna hefur verið formaður faghóps í öldrunarhjúkrun á HSN frá 2016 og hefur yfirumsjón með innleiðingu á Þjónandi leiðsögn sem stefnt er að á allri stofnuninni í haust.