Röntgendeild

Deildin er opin frá kl. 8.00 – 16.00 virka daga og er gengið inn í húsið að ofanverðu hjá heilsugæslu.

Á röntgendeildinni eru starfandi tveir geislafræðingar.  Einnig er starfandi röntgenlæknir sem les úr myndunum.  Ef hann er ekki viðlátinn lesa röntgenlæknar á Fjórðungssjúkrahúsinu á Akureyri úr myndunum.

Bakvaktir geislafræðinga eru aðeins um helgar og almenna frídaga yfir veturinn, en sólarhringsvaktir eru í 2 mánuði yfir sumarið. Röntgenmyndir eru teknar eftir að deildinni berst beiðni frá lækni.

Á röntgenstofunni er einn röntgenlampi, bekkur og lungnastandur. Hér eru teknar helstu beinamyndir, lungnamyndir, myndir af afholum nefsins og rannsóknir af kviðarholi og þvagfærum.

Frá haustinu 2006 eru allar myndir stafrænar ( þ.e. í tölvu ) og eru sendar í vörslu á Fjórðungssjúkrahúsinu á Akureyri, en alltaf er hægt að skoða þær hér. Tenging í gegnum netið gerir það kleyft að hægt er að sjá myndir teknar á Húsavík, á Landspítala og víðar.

Röntgengeislar eru notaðir til þess að búa til myndir af innviðum líkamans til sjúkdómsgreiningar. Líkaminn er byggður upp af mismunandi þykkum og þéttum vefjum, sem eru mismunandi gegnsæir við geislun. Mun minna af geislum kemst t.d. í gegnum bein en vöðva og því verður svæði undir beinum ljóst á röntgenmynd, en dökkt undir mjúkum vefjum.

Við röntgenmyndgerð eru það geislafræðingar sem stjórna röntgenbúnaðinum. Þeir velja rétt svæði á líkamanum og stöðu hans fyrir hverja rannsókn, og rétt geislamagn sem þarf fyrir hverja rannsókn.

Geislafræðingar sinna öryggiseftirliti á tækjum með mælingum einu sinni í mánuði, en að auki kemur tæknimaður frá FSA tvisvar á ári og  gerir enn frekari mælingar og lagfærir ef eitthvað bilar. Geislavarnir ríkisins fylgja síðan þessu eftirliti eftir.

  

Starfsmenn:    

Soffía B. Sverrisdóttir, yfirgeislafræðingur.

soffia.sverrisdottir@hsn.is

 

 

Sími á deildinni er  464 0550.