Sálfélagsleg þjónusta

 

Sálfélagsleg þjónusta 

Sálfræðingar starfa á öllum meginstarfsstöðvum HSN og sinna meðferð barna og ungmenna og fjölskyldna þeirra og fullorðinna 18 ára og eldri. 

Sérstök áhersla er lögð á þjónustu við börn og barnafjölskyldur, barnshafandi konur og foreldra ungbarna.  

Sálfræðingar hafa samvinnu við m.a. skóla og félagsþjónustur. 

Til að komast til sálfræðings þarf tilvísun frá lækni. Þó geta ljósmæður í mæðravernd, hjúkrunarfræðingar í ungbarnaeftirliti, skólahjúkrunarfræðingar og skólasálfræðingar í vissum tilvikum einnig sent tilvísun til sálfræðings. 

Greitt er eins og fyrir önnur viðtöl á heilsugæslu (frítt fyrir börn, öryrkja og eldri borgara). 

 

Sálfræðiþjónusta fullorðinna 

Tilvísun þarf frá lækni. Í þjónustunni felst mat á vanda, meðferðaráætlun og viðeigandi meðferð við þunglyndi, kvíðaröskunum og áfallastreituröskun þar sem vandi er vægur eða miðlungs alvarlegur. Lögð er áhersla á hópmeðferðir. Ákvörðun um meðferð í hópi eða einstaklingsviðtölum byggir á klínísku mati sálfræðings. Í þeim tilfellum þar sem meðferð í heilsugæslu er ekki talin raunhæf vísar sálfræðingur á önnur úrræði.  

Sálfræðingar HSN gera ekki taugasálfræðilegar athuganir, þ.e. ADHD-athuganir, athuganir á einkennum einhverfu eða greindarmat. 

 

Sálfræðiþjónusta barna að 18 ára 

Tilvísun þarf frá lækni, hjúkrunarfræðingi í ungbarnavernd, skólahjúkrunarfræðingi eða skólasálfræðingi.  

Sálfræðingar meta vanda og veita börnum viðeigandi meðferð við vægum eða miðlungs alvarlegum hegðunar- og tilfinningavanda og foreldrum þeirra ráðgjöf. Almennt er miðað við 4-6 viðtöl.  

Áhersla er lögð á rétta meðferð í samræmi við greiningu. Við ákveðnar aðstæður er barni vísað á hópnámskeið eða hópmeðferð.  

Meðferð er alltaf í samvinnu við foreldra/forráðamenn. Foreldrar/forráðamenn mega vænta þess að vera þátttakendur í meðferð barna sinna. 

Samstarf er við lækna, hjúkrunarfræðinga og ljósmæður. Einnig skóla og félagsþjónustur. 

 

HAM fyrir fullorðna - hópameðferð. 

Í HAM (hugræn atferlismeðferð) eru kenndar aðferðir til að takast á við tilfinningalega vanlíðan. Skv. rannsóknum er í dag HAM ein árangursríkasta meðferð sem völ er á við t.d. kvíða og þunglyndi. Meðferðin er ætluð einstaklingum eldri en 18 ára. Þar sem starfsstöðvar HSN eru ólíkar og þjónusta misjafnlega stóran hóp einstaklinga getur reynst erfitt að mynda hópa á öllum starfsstöðvum. Möguleiki er þó á að einstaklingar fari á milli staða til að taka þátt í HAM hópi. Tilvísun þarf frá lækni. 

Hópameðferðin fer fram einu sinni í viku, tvo tíma í senn í alls sex skipti. Felur hún í sér fræðslu, umræður og heimaverkefni. Sálfræðingar stjórna meðferð en aðrar fagstéttir geta tekið þátt.  

Greitt er komugjald á heilsugæslu fyrir hvert skipti sem námskeiðið er sótt.  

 

Á meðgöngu og eftir fæðingu. 

Sálfræðingar veita meðferð á meðgöngu og eftir fæðingu eftir tilvísun frá læknum, ljósmæðrum og hjúkrunarfræðingum ungbarnaverndar.