Ný heilsugæslustöð opnuð í Mývatnssveit

Gerbreyting á aðstöðu til heilbrigðisþjónustu á svæðinu.
Þann 10. ágúst sl. var formlega opnuð ný heilsugæslustöð í Mývatnssveit af Kristjáni Þór Júlíussyni,  heilbrigðisráðherra. Um er að ræða nýja 240 fermetra stöð  með bílaskýli sem byggð er eftir teikningu Björns Kristleifssonar arkitekts.  Aðalverktaki var Trésmiðjan Rein og kostnaður nam um 115 milljónum króna.

Nýtt húsnæði heilsugæslunnar er bylting í aðstöðu heilbrigðisstarfsfólks og íbúa í  Mývatnssveit en hún leysir af gamalt íbúðarhús þar sem heilsugæslan hefur verið til húsa frá 1984. Í nýju heilsugæslustöðinni er aðstaða fyrir lækni, hjúkrunarfræðing og skoðunarstofa. Þá er einnig aðstaða fyrir sjúkraþjálfun og flyst sú starfsemi inn í nýju heilsugæsluna og er það framför í þjónustu við íbúa.  Þá verður Lyfja áfram með afgreiðslu í nýju stöðinni með bættu vöruúrvali

Heilsugæslustöðin í Mývatnssveit er ein af átján starfstöðvum heilbrigðisstofnunar Norðurlands og hefur verið rekin þar öflug heilsugæsla undanfarin ár í umsjón Dagbjartar Bjarnadóttur,  hjúkrunarfræðings.  Læknir kemur tvisvar í viku og rekin er heimahjúkrun frá stöðinni.  Sérstaða heilsugæslunnar felst þó í þjónustu við ferðamenn en mikil fjölgun ferðafólks hefur aukið eftirspurn eftir heilbrigðisþjónustu á svæðinu til muna.

Við fögnum nýrri heilsugæslustöð og þeirri aðstöðu sem hún veitir og óskum íbúum og starfsfólki innilega til hamingju með hana.

Framkvæmdastjórn HSN