Sóttvarnarreglur á HSN frá 12. nóvember 2021

Sóttvarnarreglur á HSN frá 12. nóvember 2021

 

Almennt gildir:

 • Starfsmenn viðhafa grundvallarsmitgát við öll störf sem felst meðal annars í handhreinsun og viðeigandi notkun hlífðarbúnaðar. Starfsfólk er hvatt til að viðhafa einstaklingsbundnar smitvarnir innan sem utan vinnu.
 • Starfsmaður með einkenni sem bent gætu til Covid-19 smits á ekki að mæta í vinnu en fara í sýnatöku og sýna fram á neikvætt svar áður en hann mætir til vinnu. Starfsmaður er í einangrun þar til neikvætt svar liggur fyrir. Þegar mönnun er tæp, einkenni eru væg og enginn grunur um útsetningu fyrir Covid getur neikvætt hraðgreiningarpróf heimilað starfsmanni að vinna í sóttkví C þar til neikvætt PCR próf sem tekið yrði samtímis lægi fyrir.
 • Grímuskylda er hjá starfsmönnum í sameiginlegum rýmum.

 

Heilsugæslan:

 • Starfsmannafatnaður er valkvæður.
 • Í móttöku og á röntgen og rannsókn skal starfsmaður og skjólstæðingur bera grímu.

 

Heimahjúkrun:

 • Grímuskylda starfsmanna.

 

Sjúkra- og hjúkrunardeildir:

 • Grímuskylda er hjá starfsmönnum sjúkra- og hjúkrunardeilda.
 • Íbúar í hjúkrunar- og dvalarrýmum og sjúklingar á sjúkradeildum þurfa ekki að bera grímu á sinni deild.
 • Tveir gestir mega koma í heimsókn á sama tíma.
 • Mælst er til að börn innan 12 ára komi ekki í heimsókn.
 • Gestir fara rakleiðis að herbergi íbúa og aftur að útidyrum að heimsókn lokinni, mega ekki staldra við í sameiginlegum rýmum heimilis og þurfa að þvo hendur með sápu eða spritta áður en gengið er inn á heimili og einnig við brottför.
 • Heimsóknargestir þurfa að bera grímu. Inni á herbergjum íbúa þurfa fullbólusettir heimsóknargestir ekki að bera grímur ef 1 metra fjarlægðarregla er viðhöfð.
 • Fullbólusettir heimsóknargestir sem dvalið hafa erlendis mega koma í heimsókn eftir eina neikvæða Covid sýnatöku (PCR eða hraðgreiningarpróf).
 • Óbólusettir/hálfbólusettir heimsóknargestir sem koma erlendis frá mega ekki koma í heimsókn fyrr en búið er að svara neikvæðu sýni (PCR) á 5. degi frá komu til landsins.
 • Íbúar mega fara út af heimilinu t.d. í bílferðir eða heimsóknir. Við biðlum til íbúa, aðstandenda og annarra gesta að fara varlega, fylgja þeim sóttvarnarreglum sem almennt gilda í samfélaginu og forðast mannmarga staði.
 • Utanaðkomandi einstaklingar sem veita persónulega þjónusta við íbúa og dægrastyttingu (t.d. hársnyrtifólk, fótaaðgerðarfræðingar, hljóðfæraleikarar) þurfa að bera grímu.

 

Vinsamlega EKKI koma í heimsókn ef:

 • Þú ert í sóttkví eða einangrun.
 • Þú bíður eftir niðurstöðu úr sýnatöku.
 • Þú ert með flensulík einkenni (kvef, hósta, hita, höfuðverk, beinverki, kviðverki, niðurgang, breytt lyktar- eða bragðskyn).
 • Þú hefur verið í einangrun vegna COVID-19 smits og ekki eru liðnir 14 dagar frá því að einangrun lauk.

 

Matsalir:

 • Mælst er til að starfsmenn haldi persónulegar sóttvarnir og spritti hendur fyrir og eftir komu í matsal.
 • Mælst er til að starfsmenn takmarki eins og kostur er þann tíma sem dvalið er í matsal.
 • Grímuskylda í matsal nema meðan matast er.

 

Fullbólusettur starfsmaður sem ferðast erlendis:

 • Starfsmaður skal fara strax í sýnatöku við komu til landsins og skila neikvæðu PCR prófi áður en hann kemur til vinnu. Starfsmaður fer þá í vinnusóttkví C og þarf að skila neikvæðu PCR prófi 5 dögum eftir komu til að losna úr sóttkví C.

 

Starfsmaður á heimili með einstaklingi í sóttkví:

 • Skv. reglum sóttvarnarlæknis geta aðilar á heimili sem ekki hafa verið útsettir fyrir smiti verið á heimilinu með einstaklingi sem er í sóttkví en skulu gæta að smitvörnum eins og kostur er. Þeir mega stunda vinnu og skóla utan heimilis. Foreldri með barni í sóttkví vegna nándar við tilfelli þarf ekki að vera skráð í sóttkví og þarf ekki að fara í skimun. Það er nóg að barnið sé skráð í sóttkví og fari í sýnatöku.

 

Eftirfarandi vinnuregla gildir á HSN:

 • Ef einstaklingi á heimili bólusetts starfsmanns er skipað í sóttkví vegna útsetningar í samfélaginu er starfsmaður ekki í heimasóttkví en þarf að vinna skv. vinnusóttkví C þar til heimilismaður hefur lokið sóttkví (með neikvæðu PCR sýni). Ef hægt er að halda algjörum aðskilnaði á heimili (engir sameiginlegir snertifletir) er ekki þörf á sóttkví C.
 • Ekki er þörf á sérstökum ráðstöfunum umfram persónulegar sóttvarnir ef starfsmaður er á heimili þar sem einstaklingur er í smitgát.
 • Starfsmanni HSN er því heimilt að sækja vinnu og vinna skv. sóttkví C þó einstaklingur á heimilinu (barn eða fullorðinn) sé í sóttkví.

 

Ef upp koma hópsýkingar eða fjölgun smita sem tengjast starfsstöð eða
starfseiningu innan stofnunarinnar geta stjórnendur viðkomandi
starfsstöðvar í samvinnu við sóttvarnarlækna eða yfirstjórn hert
sóttvarnarreglur þar.
Reglur þessar verða endurmetnar og uppfærðar í samræmi við gang
faraldursins.

12. nóvember 2021
Framkvæmdastjórn HSN