Afmælishátíð hjá HSN á Húsavík

Heiðursmenn á 50 ára starfsafmæli, læknarnir Ingimar Hjálmarsson og Gísli G. Auðunsson taka við verð…
Heiðursmenn á 50 ára starfsafmæli, læknarnir Ingimar Hjálmarsson og Gísli G. Auðunsson taka við verðskuldaðri viðurkenningu og blómum frá Jóni Helga Björnssyni, forstjóra HSN.

Afmælishátíð hjá HSN á Húsavík var haldin í desember á nýliðnu ári, þar sem Læknamiðstöðin á Húsavík átti 50 ára starfsafmæli og um leið var fagnað 80 ára afmæli gamla sjúkrahússins. Afmælisfagnaðurinn fór fram í biðstofu heilsugæslunnar og tók þar Heilsutríóið nokkur lög en það tónlistarfólk er allt starfsmenn HSN.
Jón Helgi Björnsson, forstjóri HSN, ávarpaði hátíðargesti og flutti ágrip af sögu sjúkrahússins og læknamiðstöðvarinnar:
„Undirbúningsfundur að byggingu sjúkrahúss á Húsavík var haldinn árið 1933 og í framhaldinu var hafist handa við fjársöfnun til byggingarinnar, þar sem félagasamtök og einstaklingar höfðu forgöngu um málið, skipulögðu fjáröflunarsamkomur ásamt því að fá fjárframlög frá ríki og sveitarfélögum. Framlög voru í ýmsu formi á þessum tíma; styrkir,vinnuframlag eða annað sem fólk gat lagt af mörkum og þarna tókst að safna fyrir hátt í fjórðungi byggingarkostnaðar. Nýbyggt sjúkrahús var svo tekið í notkun 17. nóvember 1936 eða fyrir 80 árum en í daglegu tali kallast húsið núna Gamla sjúkrahúsið,“ sagði Jón Helgi.

Jón Helgi Björnsson, forstjóri HSN, ávarpaði gesti og flutti ágrip af sögu sjúkrahúss og læknamiðstöðvar Heiðursmenn fá viðurkenningar fyrir vel unnin störf. Læknarnir Ingimar Hjálmarsson og Gísli Auðunsson í góðum fagnaði.
Á Húsavík var á sínum tíma unnið frumkvöðlastarf í heilbrigðismálum en Læknamiðstöðin þar var í raun fyrsta eiginlega heilsugæslustöðin hér á landi. Tveir ungir læknar réðust til starfa á Húsavík árið 1966 og höfðu þeir forgöngu um stofnun Læknamiðstöðvarinnar sama ár,  það eru þeir Ingimar Hjálmarsson og Gísli G. Auðunsson. Þessir læknar unnu þarna brautryðjendastarf, þar sem horfið var frá því að læknar ynnu einir á einmenningsstöðvum, sem erfitt var að manna en í stað þess tæki við kerfi, sem byggði á teymisvinnu lækna og annars heilbrigðisstarfsfólk, s.s. hjúkrunarfræðinga, ritara o.fl. Þetta var í raun fyrsta heilsugæslustöðin sem sett var á fót hérlendis með þessu sniði.
Mannmargt var í biðsal heilsugæslunnar, þar sem afmælisfagnaðurinn fór fram. Heilsutríóið flutti nokkur lög í afmælinu

Í máli Jóns Helga, forstjóra HSN, kom einnig fram hversu mikill fengur það var fyrir samfélagið á og við Húsavík að fá þessa öflugu ungu lækna til starfa á sínum tíma en báðir fóru þeir í framhaldsnám sem nýttist svæðinu vel og nýjungarnar sem þeir innleiddu hafa rutt brautina fyrir aðra og verið þeim fyrirmynd.
Læknamiðstöðin á Húsavík er enn í dag fyrirmynd að því sem menn telja hvað best í dag. Eftir þeirra starf sem er reyndar ekki lokið, stendur eftir eining hér á Húsavík sem er sterk faglega og er góður vinnustaður, sagði Jón Helgi ennfremur og afhenti hann Gísla og Ingimar blómvendi í tilefni þessara tímamóta en þeir starfa enn hjá stofnunni og hafa því náð 50 ára starfsaldri.

Viðurkenningar veittar fyrir vel unnin störf Fjölmenni á afmælisfagnaði