Góðar gjafir á Heilbrigðisstofnun Norðurlands á Sauðárkróki

Örn Ragnarsson, Engilráð M. Sigurðardóttir, Elín H. Sæmundardóttur og Herdís Klausen við afhendingu …
Örn Ragnarsson, Engilráð M. Sigurðardóttir, Elín H. Sæmundardóttur og Herdís Klausen við afhendingu hjúkrunarrúmanna.

Heilbrigðisstofnun Norðurlands á Sauðárkróki tók í dag formlega við góðum gjöfum, þremur hjúkrunarrúmum ásamt fylgihlutum. Herdís Klausen yfirhjúkrunarfræðingur segir þetta kærkomna gjöf, sem kemur sér afar vel og eru rúmin þegar komin í notkun en þau koma í stað eldri rúma sem komin voru á tíma. 
Gefandinn er Minningarsjóður frú Sigurlaugar Gunnarsdóttur frá Ási í Hegranesi en sjóðurinn var stofnaður 7. júlí 1969  í tilefni þess, að þá voru liðin 100 ár frá stofnun fyrsta kvenfélags í Skagafirði. Það var gert að Ási í Hegranesi og að frumkvæði Sigurlaugar Gunnarsdóttur húsfreyju þar.
Tilgangur sjóðsins er að styrkja Heilbrigðisstofnun Norðurlands á Sauðárkróki, sem áður hét Sjúkrahús Skagfirðinga, til kaupa á lækningatækjum eða öðru því sem stjórn sjóðsins telur mesta nauðsyn á, hverju sinni. Sjóðurinn er fjármagnaður með sölu minningarkorta, minningargjöfum og öðrum gjöfum.
Herdís Klausen yfirhjúkrunarfræðingur tók við gjöfinni frá stjórn sjóðsins en hana skipa Örn Ragnarsson, framkvæmdastjóri lækninga, Engilráð M. Sigurðardóttir og Elín H. Sæmundsdóttir.
Heilbrigðisstofnun Norðurlands færir Minningarsjóðnum bestu þakkir fyrir kærkomna gjöf.

Sjúkrarúm