Kynslóðaskipti á rannsóknardeild Sjúkrahússins á Húsavík

Ragnhildur Hreiðarsdóttir og barnabarn hennar, Magnea Ósk Örvarsdóttir á rannsóknardeild sjúkrahússi…
Ragnhildur Hreiðarsdóttir og barnabarn hennar, Magnea Ósk Örvarsdóttir á rannsóknardeild sjúkrahússins á Húsavík.

Á Húsavík er alltaf eitthvað skemmtilegt að gerast en nýlega urðu kynslóðaskipti á rannsóknardeild sjúkrahússins þar sem barnabarnið tók við af ömmunni sem staðið hafði þar vaktina í rúma hálfa öld.

Ragnhildur Hreiðarsdóttir á að baki 54 ára farsælt starf á sjúkrahúsinu á Húsavík en hún varð sjötug í sumar og mun því snúa sér að öðrum verkefnum. Barnabarnið Magnea Ósk Örvarsdóttir fetar fast í fótspor ömmu sinnar og tók hún við starfinu daginn sem amman hætti.
„Þetta er búinn að vera góður tími hér á rannsókn þar sem ég hef eytt minni starfsævi og einstakt að fylgjast með frá grunni hve mikil breyting hefur orðið á þessum tíma, einkum varðandi tækni og alla aðstöðu,“ sagði Ragnhildur sem er ánægð með að  barnabarn hennar velji þennan starfsvettvang og  hvetur unga fólkið til að fara í þetta nám.
Ragnhildur byrjaði á svo kölluðum Gamla spítala á Húsavík og var þá eini starfsmaðurinn á rannsókn en ekki hafði áður hvarflað að henni að þar yrði starfsvettvangur hennar.  Hún var aðeins sextán ára gömul þegar henni var boðið að koma í vinnu á Gamla spítalanum þar sem hún var lækni til aðstoðar og þótti góður nemandi hans, hún tók m.a. hjartalínurit og röntgenmyndir en fór síðan á sjúkrahúsið á Akureyri í starfsþjálfun í þrjá mánuði á röntgendeild og rannsókn. Hún sneri síðan reynslunni ríkari til Húsavíkur þar sem sjúkrahúsið hefur notið starfskrafta hennar í rúma hálfa öld.

Barnabarnið Magnea Ósk er Húsvíkingur eins og amman en hún útskrifaðist með BS í lífeindafræði frá Háskóla Íslands í sumar. „Hér á Húsavík er gott að vinna,allt er svo heimilislegt og aðstaðan líka frábær í vinnunni, við höfum hér allt til alls. Svo er líka snilld að hafa ömmu við hliðina, ég fékk meira að segja fataskápinn hennar,“ sagði Magnea, ánægð með að vera aftur komin á heimaslóðir. Hún segir lífeindafræði vera skemmtilegt nám, hlakkaði á hverjum degi til að fara í skólann og stefnir á framhaldsnám innan fárra ára.

Reynsluboltinn Ragnhildur amma hennar er ekki langt undan, þó formlega sé hún hætt vinnu, það má hóa í hana þegar þörf krefur og hún er þá til í að hlaupa í skarðið, "hér erum við eins og ein stór fjölskylda," sagði Ragnhildur og ber vinnustað sínum á sjúkrahúsinu vel söguna. 

Heilbrigðisstofnun Norðurlands á Húsavík hefur átt traust starfsfólk í gegnum tíðina, eins og löng starfsævi margra sýnir. Undanfarið hafa miklar mannabreytingar hafa verið á rannsóknardeild sjúkrahússins en starfsmenn til margra áratuga hafa nú lokið sínum störfum hjá stofnuninni eftir farsæla starfsævi. Á rannsóknardeildinni á Húsavík eru nú þrjár heilar stöður lífeindafræðinga og er þjónustusvæðið allstórt, allt frá Þórshöfn til Blönduóss að undanskildum Sauðárkróki og Akureyri, sem sinna rannsóknum á sínu svæði.