Sjálfvirkt hjartahnoðtæki í sjúkrabíl HSN á Þórshöfn

Heilbrigðisstarfsfólk og sjúkraflutningamenn með nýja Lucas 3 tækið.
Sjúkraflutningamennirnir Þorst…
Heilbrigðisstarfsfólk og sjúkraflutningamenn með nýja Lucas 3 tækið. Sjúkraflutningamennirnir Þorsteinn, Þórarinn og Þórir ásamt hjúkrunarfræðingunum Sólrúnu og Önnu Lilju, Guðrúnu ljósmóður og Sigurði Halldórssyni, lækni

Sjálfvirkt hjartahnoðtæki, Lucas 3,  bættist í haust við tækjakost sjúkrabíls HSN á Þórshöfn og er það nýjasta gerðin af þessum hjartahnoðtækjum. Sjúkraflutningamenn á Þórshöfn segja stoltir frá því að sjúkrabíllinn á Þórshöfn hafi verið sá fyrsti á landinu sem fékk tækið Lucas 3:
„Við sem erum hér í sjúkraflutningunum leggjum mikla áherslu á að hafa sem bestan búnað til að auka öryggi sjúklinga og þetta tæki getur aukið lífslíkur sjúklings sem þarf að flytja á milli staða. Hér geta skapast erfiðar aðstæður yfir vetrartímann því nokkuð langt er í næsta sjúkrahús og og yfir fjallvegi að fara, sem ekki eru alltaf auðveldir. Sjálfvirkt hjartahnoðtæki er mikilvægur öryggisbúnaður sem sparar tvær hendur þegar mikið liggur við.“
Sjúkraflutningamenn áttu frumkvæði  að söfnuninni og leituðu aðstoðar fyrirtækja í heimabyggð og styrktarfélaga. Erindi þeirra var vel tekið og er nýja tækið komið í bílinn en andvirði þess er rúmar tvær milljónir.