Til hamingju með daginn hjúkrunarfræðingar og ljósmæður

Til hamingju með daginn hjúkrunarfræðingar og ljósmæður

 

Á Alþjóðlegum degi hjúkrunarfræðinga, 12. maí fögnum við afrekum og störfum hjúkrunarfræðinga um allan heim. Hjá HSN starfa 125 hjúkrunarfræðingar og ljósmæður. Störf þeirra krefjast mikillar sérþekkingar og ábyrgðar, en þau má telja meðal annars á hjúkrunar- og sjúkradeildum, í hjúkrunarmóttöku, meðgönguvernd, ung- og smábarnavernd, við heilsuvernd grunnskólabarna, heimahjúkrun, á speglunardeildum, við ráðgjöf til reykleysis og við svörun í 1700 númerið á dagvinnutíma. Eins og víðar, hefur mikið mætt á hjúkrunarfræðingum HSN sem hafa auk daglegra starfa haft umsjón með sýnatökum vegna Covid-19, bólusetningum, sem munu standa langt fram á sumar og öðrum verkefnum sem heimsfaraldrinum hefur fylgt. Allir hafa verið tilbúnir að leggja sitt af mörkum, þrátt fyrir mikið álag í þessum nýja veruleika og hefur gleðin og samstaðan skinið skært.

 

Í maímánuði höfum við reyndar tvöfalda ástæðu til þess að fagna, en Alþjóðlegur dagur ljósmæðra var haldinn 5. maí. Til gamans má minnast á að orðið ljósmóðir var kosið fegursta orð íslenskrar tungu fyrir nokkrum árum enda ber orðið gagnsæja og fallega merkingu.

 

Við sendum hamingjuóskir til allra hjúkrunarfræðinga og ljósmæðra og þökkum fyrir þeirra ómissandi starf.