Velferðartækni á málþingi Veltek

Perla Björk Egilsdóttir verkefnastjóri Veltek.
Perla Björk Egilsdóttir verkefnastjóri Veltek.

Heilbrigðis- og velferðartækniklasi Norðurlands (Veltek) hélt vel heppnað málþing á dögunum um nýjar nálganir í þjónustu við íbúa undir yfirskriftinni Samþætting heilbrigðis- og velferðarþjónustu, sjálfbær þjónusta, sjálfstæðir notendur. Flutt voru erindi um stafræn umskipti innan heilbrigðis- og velferðarþjónustu í dreifðum byggðum, samvinnu á norðurslóðum og kynntar voru rannsóknir á þjónustulausnum.

Perla Björk Egilsdóttir verkefnastjóri Veltek opnaði málþingið og kynnti klasasamstarfið og þar á eftir flutti Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra rafrænt ávarp, þar sem hann fagnaði frumkvæði að stofnun klasans.

Fjöldi áhugaverðra erinda voru flutt á málþinginu. Fjallað var um rannsóknir á stafrænum umskiptum, velferðartækni og fjarlausnir á strjálbýlum svæðum í Svíþjóð. Notendur þjónustunnar eru yfirleitt ánægðir og með aukinni velferðartækni er hægt að búa lengur heima og halda sjálfstæði. Jafnframt var fjallað um jákvæð umhverfisáhrif af stafrænum umskiptum. Áhugaverð rannsóknarverkefni hafa verið í gangi á Norðurlöndum sem tengjast velferðartækni og sjálfstæðri búsetu. Almennt eru notendur jákvæðir í garð nýrrar tækni en það kom fram að mikilvægt er að þeir séu hafðir með í þróuninni.

Þá var fjallað um norðurslóðir og áskoranir sem fylgja dreifðum byggðum og skorti á innviðum. Ýmis tækifæri eru til samstarfs en sérstök áhersla var lögð á að hafa fulltrúa frá öllum samfélögum með í öllu ferlinu þegar unnin eru samstarfsverkefni.  

Mikið af velferðartæknilausnum hafa orðið til á síðustu áratugum með samvinnu fyrirtækja og heilbrigðisstofnana á svæðinu. Tækifærin eru mörg til samvinnu og nýsköpunar þó ýmsar áskoranir séu s.s. lítill markaður og tilhneiging til að allt taki langan tíma.

Sveigjanleg dagþjálfun á Hlíð er dæmi um nýsköpun í hugsun og er miðuð að því að efla og styðja fólk að búa lengur heima og koma í veg fyrir ótímabæra stofnanadvöl. Ýmsar nýjungar í velferðartækni hafa verið innleiddar í heimahjúkrun á Akureyri sem bæta aðstöðu starfsfólks og skipulag sem og veita notendum aukið sjálfstæði og lífsgæði. Þá var fjallað um nýjungar í sjúklingafræðslu með hjálp tækninnar, m.a tölvuleik sem hannaður er fyrir börn sem eru á leið í svæfingu. Þar var aftur rætt mikilvægi þess að hafa notendur með í þróuninni frá upphafi en einnig að það megi ekki gleyma persónulegum samskiptum við skjólstæðinga.

Að lokum var kynnt nýsköpunarverkefni í öldrunarþjónustu í Fjallabyggð þar sem áhersla verður á velferðartækni, fræðslu og fjarþjónustu. Meðal markmiða verkefnisins er að auka dagþjálfun og gera sveigjanlegri, auka samstarf milli þjónustuaðila og innleiða velferðartækni.

Á meðan á málþinginu stóð kynntu ýmis fyrirtæki lausnir sína í velferðartækni.

Að málþinginu loknu var skrifað undir samstarfsyfirlýsingu HSN, Veltek og Fjallabyggðar. Samstarfið miðar að því að gera innleiðingu á nýjum heilbrigðis- og velferðartæknilausnum í sveitarfélaginu öruggari, skilvirkari og árangursríkari. Jón Helgi Björnsson forstjóri HSN, Sigríður Guðrún Hauksdóttir forseti bæjarstjórnar í Fjallabyggð og Perla Björk Egilsdóttir verkefnastjóri Veltek skrifuðu undir samstarfsyfirlýsinguna.

Dagskrá málþingsins er að finna á heimasíðu Veltek og hægt er að horfa á það hér.

Heilbrigðisstofnun Norðurlands er einn af bakhjörlum klasans og má finna nánari upplýsingar á heimasíðu Veltek