Velunnarar styrkja Heilbrigðisstofnun Norðurlands á Sauðárkróki

Fulltrúar Oddfellowstúku og Minningarsjóðs ásamt starfsfólki HSN við afhendingu gjafanna
(Mynd: Fey…
Fulltrúar Oddfellowstúku og Minningarsjóðs ásamt starfsfólki HSN við afhendingu gjafanna (Mynd: Feykir/Páll Friðriksson)

Heilbrigðisstofnun Norðurlands á Sauðárkróki tók á móti góðum gjöfum frá Oddfellowstúkunni Sif no.22 á Sauðárkróki þann 17. maí s.l.
Gjafirnar voru LifePak 15 hjartastuðtæki frá Pysio Control og er búið 12 leiðslu hjartalínuriti, mælingum á súrefnismettun, hita, blóðþrýstingi, gangráðskerfi o.fl. Með 3G sendibúnaði er hægt að senda hjartalínurit og niðurstöður lífsmarkamælinga til sérfræðinga á Landspítala og SAk.  Betra verður að fylgjast með skyndilega veikum einstaklingum og árangri hjartahnoðs í endurlífgun. LifePak tæki eru nú þegar í öllum sjúkrabílum og eykur það samræmi í meðferð og öryggi sjúklinga. Andvirði tækisins er kr 1.790.000 án vsk.

Minningarsjóður Sigurlaugar Gunnarsdóttur frá Ási afhenti við sama tækifæri aukabúnað  sem samanstendur af:  3G sendibúnaði, mansettum í öllum stærðum og hleðslutæki. Andvirði aukabúnaðarins er  um 300.000 kr án vsk.
Tækið ásamt öllum aukabúnaði verður staðsett á sjúkradeild HSN á Sauðárkróki.

Það voru félagar úr Oddfellowstúkunni Sif no. 22 sem afhentu tækið og Engilráð M. Sigurðardóttir, gjaldkeri Minningarsjóðs Sigurlaugar Gunnarsdóttur frá Ási afhenti aukabúnaðinn. Herdís Klausen yfirhjúkrunarfræðingur og Þorsteinn Þorsteinsson yfirlæknir veittu gjöfunum móttöku og þökkuðu höfðinglegar gjafir.