Ráðstefna í Skotlandi

Deborah Júlía Robinson var með erindi um MS verkefni sitt á ráðstefnu í Ayr, Skotlandi
Deborah Júlía Robinson var með erindi um MS verkefni sitt á ráðstefnu í Ayr, Skotlandi

"Það var litið á mig sem manneskju en ekki sem vonlaust tilfelli." 
-Reynsla ungs fólks af því að vera í sérskóla-

Deborah Júlía Robinson var með erindi um MS verkefni sitt nú á dögum á ráðstefnu í Ayr, Skotlandi. 

Nemendur með sérþarfir eru fjölbreyttur hópur og mikil áskorun er að finna þeim stað innan almenns skólakerfis. Skóli án aðgreiningar byggist á hugmyndafræði sem gerir kröfur um að skólar lagi sig að sérþörfum nemenda sinna. Hugmyndafræðin hefur verið notuð í grunnskólakerfinu í allt að 40 ár. Sumir nemendur með sérþarfir eru meira krefjandi en aðrir og nemendur með alvarleg hegðunarvandamál finna sig betur í sérnámi utan við hið formlega skólakerfi. Tilgangur rannsóknarinnar var að öðlast skilning á reynslu nemenda sem höfðu sótt skóla sem sérhæfir sig í að vinna með nemendum með alvarleg hegðunarvandamál. Alþjóðlega flokkunarkerfið um færni, fötlun og heilsu (The International Classification of Functioning, Disability and Health (ICF)) var notað sem kenningarlegur rammi þar sem það gerði  rannsakandanum kleift að beina sjónum sérstaklega að mikilvægi samhangandi þátta hvað varðar þátttöku nemenda í námi og að öðlast þekkingu. Valin var eigindleg rannsóknaraðferð og tekin voru tíu viðtöl við níu fyrrum nemendur sem stunduðu nám við skólann á árunum 2000-2010. Gagnasöfnun stóð yfir í eitt ár og við gagnagreiningu var stuðst við aðferðir grundaðrar kenningar og gögnin kóðuð og umbreytt í þemu. Niðurstöður rannsóknarinnar sýndu að reynsla þátttakenda af námi í sérskóla var almennt jákvæð. Samt sem áður var vinnan að baki góðum árangri oft fengin með blóði, svita og tárum. Meginniðurstaða rannsóknarinnar sýndi fram á áhrif umhverfisþátta á framfarir í námi og hegðun nemendanna. Niðurstöður rannsóknarinnar benda til að mikilvægt sé að samþætta einlæg samskipti milli  kennara og nemenda, viðeigandi kennsluaðferðir og fjölbreytta námskrá í námsferlinu. Nemendur með alvarleg hegðunarvandamál þurfa að hafa raunverulegan valkost hvað varðar nám. Hafa ber í huga að breytingar á hegðun nemenda verða bæði vegna aðlögunar umhverfisþátta og sameiginlegrar ábyrgðar beggja aðila (kennari/nemandi).