Greinargerð um sjúkraflutninga

Breytingar á skipulagi sjúkraflutninga
Breytingar á skipulagi sjúkraflutninga

Breytingar á skipulagi sjúkraflutninga í Fjallabyggð hafa verið í umræðunni undanfarna daga. En þær byggjast á stefnumörkun heilbrigðisyfirvalda undanfarin ár. Eitt meginstef þeirrar stefnumörkunar er að auka á fagmenntun og þjálfun sjúkraflutningamanna sem jafnframt hefur í för með sér að rekin eru færri og öflugri lið. Stjórnendur Heilbrigðisstofnunar Norðurlands telja að ákvörðunin muni stuðla að auknu öryggi íbúa á svæðinu. Meðfylgjandi er greinargerð um efnið:

Skipulag heilbrigðisþjónustu og sjúkraflutninga á svæði Siglufjarðar, Ólafsfjarðar og Dalvíkur hefur verið til umræðu mörg undanfarin ár og ljóst að með tilkomu bættra samgangna, Héðinsfjarðarganga myndu ýmsar forsendur breytast. Með göngunum sameinuðust tvö fyrrnefndu sveitarfélögin og í kjölfarið heilbrigðisstofnanirnar á þessum stöðum. Hugmyndir voru uppi og umræður um þátttöku Dalvíkur í þessum sameiningum en urðu ekki af fyrr en Heilbrigðisstofnun Norðurlands varð til í lok árs 2014 með sameiningu allra heilbrigðisstofnana á Norðurlandi utan SAk.

Stefnumótun í sjúkraflutningum

Margar skýrslur hafa verið unnar um sjúkraflutninga á undanförnum árum. Má þar nefna „Sjúkraflutningar á Íslandi, tillögur nefndar heilbrigðisráðherra 31. janúar 2008“. Í nefndinni sátu Magnús Skúlason forstjóri Heilbrigðisstofnunar Suðurlands, Einar Hjaltason yfirlæknir á slysa- og bráðasviði LSH og formaður sjúkraflutningaráðs, Sveinbjörn Berentsson sjúkraflutningamaður, Már Kristjánsson sviðsstjóri slysa- og bráðasviðs LSH, Hildigunnur Svavarsdóttir skólastjóri Sjúkraflutningaskólans, Marinó Már Marinósson verkefnisstjóri hjá RKÍ, Óttar Ármannsson heilsugæslulæknir á Egilsstöðum, Jón Viðar Matthíasson slökkviliðsstjóri Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins.

Helstu tillögur nefndarinnar voru m.a. að komið verði á skilvirku kerfi vettvangshjálparliða og þeim tryggður farvegur sem hluti af kerfi sjúkraflutninga í heilbrigðisumdæmum og að farið verði af stað með námskeið fyrir vettvangshjálparliða og leitað leiða til að tryggja þátttöku hjúkrunarfræðinga og lækna í dreifbýli á sérskipulögðum námskeiðum í sjúkraflutningum / endurmenntun. Einnig að stefnt skuli að því að grunnmönnun á sjúkrabifreið verði að lágmarki tveir löggiltir sjúkraflutningamenn með grunnmenntun og grunnnám sjúkraflutningamanna verði eflt og lengt.

Önnur skýrsla, „Skipulag sjúkraflutninga og bráðaþjónustu utan spítala á Norðurlandi, samantekt vinnuhóps 19. janúar 2009“ var unnin af starfsfólki heilbrigðisstofnana á Norðurlandi að undirlagi þáverandi heilbrigðisráðherra í kjölfar tillagna hans um að breyta skipulagi heilbrigðisstofnana á Íslandi. Formaður vinnuhópsins var Hildigunnur Svavarsdóttir, forstöðumaður deildar kennslu og vísinda á FSA og skólastjóri Sjúkraflutningaskólans. Aðrir í vinnuhópnum voru Björn Gunnarsson, yfirlæknir á FSA og forsvarsmaður sjúkraflugsvaktar FSA, Konráð Karl Baldvinsson, forstjóriHeilbrigðisstofnunar Siglufjarðar, Sigurður Halldórsson, yfirlæknir heilsugæslu hjá Heilbrigðisstofnun Þingeyinga, Sveinbjörn Dúason, bráðatæknir og varðstjóri hjá Slökkviliði Akureyrar og Vernharð Guðnason, bráðatæknir og slökkviliðsstjóri hjá Brunavörnum Skagafjarðar og fyrrverandi formaður Landssamband slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna.

Vinnuhópnum var falið að skoða hvernig hægt væri að skipuleggja þjónustuna með hugsanlegum samlegðaráhrifum í ljósi sameiningar heilbrigðisstofnana á Norðurlandi. Helstu niðurstöður hópsins voru m.a. að á Ólafsfirði mætti koma á kerfi vettvangshjálparliða þegarHéðinsfjarðargöngin verða tilbúin. Einnig að mikilvægt væri að auka menntunarstig sjúkraflutningamanna þannig að þeir verði hæfari til að fara einir í lengri flutning með jafnvel veikari sjúklinga.

Í skýrslu ráðgjafafyrirtækisins Boston Consulting Group um íslenska heilbrigðiskerfið frá 7. október 2011, er talað um yfirdrifinn fjölda sjúkrabíla og mjög litla nýtingu margra þeirra. Í framhaldi þeirrar skýrslu skipaði velferðarráðherra verkefnishóp 2. desember 2011 til að fjalla um endurskipulagningu sjúkraflutninga á Íslandi. Hópnum var ætlað að koma með tillögur að framtíðarskipulagi sjúkraflutninga á Íslandi með hliðsjón af fyrrgreindri skýrslu. Í hópnum voru Jón Baldursson, yfirlæknir við Embætti landlæknis, formaður hópsins, Dagný Brynjólfsdóttir, deildarstjóri í velferðarráðuneyti, ritari hópsins, Hildigunnur Svavarsdóttir, framkvæmdastjóri bráða-, fræðslu- og gæðasviðs FSA, Ragnar Gunnarsson, sviðsstjóri við Sjúkratryggingar Íslands,  Guðlaug Björnsdóttir, deildarstjóri við Sjúkratryggingar Íslands, varamaður R.G., Sveinbjörn Berentsson, bráðatæknir, Landssambandi slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna og Viðar Magnússon, yfirlæknir bráðaþjónustu utan spítala, bráðasviði LSH.

 Hópurinn skilaði skýrslu, „Endurskipulagning sjúkraflutninga, skýrsla verkefnishóps velferðarráðuneytis júní 2012“. Í meginatriðum er verkefnishópurinn sammála niðurstöðum fyrri nefndar um sjúkraflutninga og gerir ráð fyrir því að þær tillögur sem fram komu í skýrslu um sjúkraflutninga á Íslandi í janúar 2008 séu í fullu gildi. Verkefnishópurinn leggur sérstaka áherslu á að umbætur í menntun sjúkraflutningamanna nái fram að ganga og telur það grundvöll fyrir allri frekari þróun innan málaflokksins.

Í skýrslunni kemur eftirfarandi fram: „Í alþjóðlegri umræðu um sjúkraflutninga er vel þekkt að erfitt getur reynst að halda uppi viðunandi gæðum faglegrar þjónustu í mjög fámennum byggðarlögum vegna þess að verkefni eru ekki nægilega mörg til að mannskapur haldist í þjálfun. Á slíkum stöðum getur verið óraunhæft að halda úti starfsstöð sjúkraflutninga af faglegum ástæðum ekki síður en fjárhagslegum. Vettvangshjálparliðar (e. first responders) eru aðilar í nærsamfélagi sem nýttir eru til að stytta tímann að fyrstu meðferð við slys og bráð veikindi þar sem sjúkrabíll er ekki á staðnum. Erlendis eru þetta oft slökkvilið eða lögregla en hér á Íslandi hafa björgunarsveitir mikið tekið þetta að sér enda fellur þetta vel að þeirra hlutverki. Undirbúningurinn er 40 stunda námskeið og búnaður sem rekstraraðili sjúkraflutninga á svæðinu lætur þeim í té. Vettvangshjálparlið starfa nú þegar t.d. á Kjalarnesi og á Flúðum. Gert er ráð fyrir því að vettvangshjálparlið verði hluti heildarskipulags sjúkraflutninga í landinu. Kanna þarf hvort gera þurfi lagabreytingu til þess að rekstraraðilar sjúkraflutninga geti boðað út vettvangshjálparliða úr björgunarsveitum en lög um björgunarsveitir gera ráð fyrir boðun af hálfu stjórnvalda (þ.á.m. slökkviliðsstjóra). Með einmenningsviðbragði sjúkraflutningamanns (e. single responder) er átt við að senda einn sjúkraflutningamann á léttri bifreið til þess að hefja meðferð við slys og bráð veikindi. Þetta viðbragð er einungis til þess að flýta meðferð og alltaf gert ráð fyrir því að sjúkrabíll með tveimur sjúkraflutningamönnum komi frá næstu starfsstöð til þess að flytja sjúklinginn. Hægt er að sjá notagildi slíkra eininga á ýmsum svæðum, t.d. 1) í byggðarkjarna í grennd við stærri kjarna með sólarhringsþjónustu sjúkraflutninga (t.d. Grindavík/Keflavík og Dalvík/Akureyri), 2) þar sem tveir kjarnar eru nærri hvorum öðrum en ekki forsenda fyrir nema einum sjúkrabíl (t.d. Ólafsvík/Grundarfjörður og Siglufjörður/Ólafsfjörður) og 3) í dreifbýli þar sem verkefnafjöldi og fólksfjöldi stendur ekki undir sjúkrabíl (t.d. Breiðdalsvík, Þingeyri, Raufarhöfn, Kópasker). Á stöðum sem þessum mætti nýta hvort sem er vettvangshjálparliða, einmenningsviðbragð eða hvort tveggja“.

 Sjúkraflutningar á starfssvæði HSN

 Með stofnun Heilbrigðisstofnunar Norðurlands haustið 2014 var verkefni framkvæmdarstjórnar m.a. að sameina sex stofnanir í eina og í því felst að skoða alla starfsemina, svo sem sjúkraflutninga á öllu starfssvæðinu. Árið 2013 var ákveðið að leggja niður sjúkraflutninga á Ólafsfirði en þáverandi heilbrigðisráðherra frestaði framkvæmd þess. Frá þeim tíma höfðu sjúkraflutningar á Ólafsfirði verið í óvissu og ljóst að nauðsynlegt var að taka ákvörðun um framtíðarskipulag þjónustunnar. Við þá skoðun fékk framkvæmdastjórn HSN Stefán Þórarinsson fyrrverandi framkvæmdastjóra lækninga á HSA til liðs við sig sem ráðgjafa og ræddi við stjórnendur starfsstöðvar HSN í Fjallabyggð og starfsfólk þess á Siglufirði og Ólafsfirði, sveitarstjórnendur í Fjallabyggð, yfirlækni bráðaþjónustu utan sjúkrahúsa og fulltrúa velferðarráðuneytisins. Auk þess hefur framkvæmdastjórn átt óformlega fundi og viðræður við fjölda stjórnenda og starfsmanna innan heilbrigðiskerfisins.

 Á undanförnum árum hafa ýmsar breytingar orðið á heilbrigðisþjónustu á landsbyggðinni. Skurðstofum hefur fækkað eða verið lagðar niður og fæðingar hafa færst á stærri stofnanir. Við þessar breytingar var horft til aukinnar menntunar, reynslu og þjálfunar starfsmanna og öryggis sjúklinga. Sama á við um sjúkraflutninga. Allar skýrslur benda á mikilvægi þess að efla menntun sjúkraflutningamanna. Þá er m.a. litið til þess að sjúkraflutningamenn fari einir í flutninga með jafnvel veikari einstaklinga án læknis og að héraðið verði því ekki læknislaust á meðan.

 HSN er í samstarfi við slökkvilið eða björgunarsveitir um vettvangslið í Hrísey, Grímsey, Mývatnssveit, Laugum og Kópaskeri. Teljum við vettvangsliðateymi betri og öruggari kost en einmenningsviðbragð sjúkraflutningamanns því oftast, eins og við endurlífgun er mikilvægt að fleiri en einn komi til aðstoðar. Hefur þetta samstarf gengið mjög vel og eflt þá aðila sem hafa tekið verkefnið að sér og aukið öryggi á svæðunum. Stefnt er því að fjölga vettvangsliðateymum á starfssvæði stofnunarinnar.

 Meðalfjöldi F1 sjúkraflutninga á Ólafsfirði s.l. 5 ár (2012-2016) er 7,6 og meðalfjöldi F1 og F2 flutninga á sama tímabili er 23,6.  Ef halda á úti sjúkraflutningum þarf hóp fólks sem skiptir með sér vöktum og er ekki hægt að reikna með minna en þrískiptum vöktum. Því má ætla að hver sjúkraflutningamaður færi að jafnaði í 2-3 F1 útköll á ári að jafnaði á Ólafsfirði.

 Á starfssvæði Fjallabyggðar og Dalvíkur eru íbúar um 4000 og eins og sjúkraflutningar voru skipulagðir áður voru 2 sjúkraflutningamenn á hverjum stað, alls 6 á vakt allan sólarhringinn allan ársins hring. Í hverju teymi þarf ca 7 menn til að skipta með sér vöktum ef vel á að vera eða 21 mann á öllu svæðinu. Miðað við fjölda flutninga þar sem við horfum fyrst og fremst á F1 og F2, er að okkar mati ógjörningur að halda uppi nægilegri þjálfun og gæðum. Til samanburðar má geta þess að í Skagafirði þar sem búa rúmlega 4000 manns eru 2 sjúkraflutningamenn á vakt og 8 manna hópur sem skiptir þeim á milli sín. Svipaða sögu er að segja um Húsavíkursvæðið þar sem íbúar eru rétt innan við 4000 en gríðarlegur ferðamannastraumur yfir sumartímann. Þar hefur þó nýlega verið sett á fót bakvakt í samvinnu við slökkviliðið á staðnum vegna fjölda flutninga og vegna framkvæmda og starfsemi á Bakka.

 Niðurstaða

 Eftir yfirferð á ofangreindum skýrslum og samtölum var niðurstaðan að leggja niður vakt sjúkraflutningamanna á Ólafsfirði og koma á vettvangsliðateymi. Sjúkraflutningur kemur síðan frá Siglufirði í flestum tilfellum, eða frá Dalvík. Menntun sjúkraflutningamanna á Dalvík og í Fjallabyggð hefur verið efld m.a. með ráðningu annars sjúkraflutningamanns í fullt starf á Siglufirði og aukinni menntun annarra starfsmanna.

 Telur framkvæmdastjórn HSN að með þessari ákvörðun hafi öryggi aukist á svæðinu og að hún sé í fullu samræmi við stefnu heilbrigðisyfirvalda.

  Virðingarfyllst,

 Framkvæmdastjórn Heilbrigðisstofnunar Norðurlands.