Heilsuveran opnar formlega í dag – Samstarf við Ráðgjöf í reykbindindi

Vefsíðan Heilsuvera.is opnar formlega í dag.
Vefsíðan Heilsuvera.is opnar formlega í dag.

Ráðgjöf í reykbindindi (RíR) sem starfrækt er á HSN-Húsavík hefur verið á síðustu mánuðum í mikilli undirbúningsvinnu við fræðilega hlutann á heimasíðunni www.heilsuvera.is.
RíR fylgir eftir tóbakshluta síðunnar, en um er að ræða samstarfsverkefni RíR, heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins og Embætti landlæknis. Heilsugæslan mun halda utan um allt efni síðunnar og sjá um þróun hennar.

Á heilsuvera.is er hægt að fara inn á sitt svæði með rafrænum skilríkjum (íslykli) og þar er m.a. hægt að bóka tíma, endurnýja lyf og skoða yfirlit fyrir bólusetningar. Margir hafa nú þegar nýtt sér þessi þægindi sem rafræna umhverfið býður upp á og þá sérstaklega til að láta endurnýja lyf.
Nú er einnig hægt að senda inn fyrirspurnir um allt sem tengist heilbrigði einstaklingsins og t.d. fá ráðgjöf til að hætta tóbaksnotkun í gegnum netið. Sú þjónusta hefur reyndar verið til staðar frá árinu 2007 í gegnum síðuna www.reyklaus.is. RíR sá alfarið um allt efni sem þar var og fylgdist með spjallþræði sem þar var inni.
Þessi síða var mjög tæknivædd á sínum tíma, þar skráði fólk sig inn, átti sitt eigið svæði, gat tekið ýmis próf, hélt utan um dagbókina sína, gat tekið þátt í spjalli við aðra sem voru að vinna í sínum neyslumálum í tengslum við tóbak, sótt sér fróðleik ofl.
Þessi síða fór undir heimasíðu frá Embætti landlæknis árið 2015 sem heitir www.heilsuhegdun.is. Sú síða er enn í ,,loftinu“, en www.heilsuvera .is á að taka við af henni.  Svona er raunveruleikinn í netheimum. Tæknin er hröð og ekki er hægt að uppfæra gamlar síður eins og raunin var með reyklaus.is.

Í dag, 3. nóvember 2017, mun formleg opnun verða á heimasíðunni www.heilsuvera.is á fræðadögum heilsugæslunnar í Reykjavík. RíR fagnar þessari flottu síðu og vonast til að hún muni nýtast einstaklingum sem ætla að hætta tóbaks- og rafsígarettunotkun.

F.h.  RíR

Jóhanna S. Kristjánsdóttir
Verkefnastjóri