Húsnæðisöflun fyrir ríkisstofnanir á Akureyri

Gerð er krafa um staðsetningu húsnæðis á Akureyri í nálægð við helstu aðalgötur/tengibrautir og alme…
Gerð er krafa um staðsetningu húsnæðis á Akureyri í nálægð við helstu aðalgötur/tengibrautir og almenningssamgöngur.

Afmörkun verkefnis

Stefnt er að því að taka á langtímaleigu (25 ár auk mögulegrar framlengingar) nútímalegt, verkefnamiðað og sveigjanlegt húsnæði fyrir ríkisstofnanir. Gerð er krafa um staðsetningu á Akureyri í nálægð við helstu aðalgötur/tengibrautir og almenningssamgöngur.

 Miðað er við að taka á leigu tvö rými um 1.700 fermetra hvort fyrir tvær heilsugæslur, norðurstöð og suðurstöð. Óskað er eftir upplýsingum frá áhugasömum aðilum á markaði, t.a.m. byggingaraðilum og fasteignafélögum, til undirbúnings og upplýsingar fyrir markaðinn um fyrirhuguð áform og kröfur varðandi þau. Heimilt verður að byggja á fjárhagslegri og tæknilegri getu samstarfsaðila.

 Til nánari undirbúnings á fyrirhuguðum áformum um leigu á húsnæði fyrir ríkisstofnanir er hér með óskað eftir upplýsingum frá áhugasömum aðilum sem hafa áhuga á að taka að sér að hanna, byggja, þróa og reka ofangreint húsnæði. Einnig frá aðilum sem eiga lóðir/húsnæði á Akureyri og gætu hugsanlega lagt þær fram til verkefnisins.

 

Upplýsingabeiðni þessi er gerð á grundvelli 45. gr. laga um opinber innkaup nr. 120/2016 og felur ekki í sér skuldbindingu til að semja við ákveðna aðila.

 

Markmið

Í kjölfar þessarar undanfarandi markaðskönnunar, er ráðgert að hefja innkaupaferli um leigu eða byggingu húsnæðis sem verður annað hvort gerður með þjónustukaupum eða með hefðbundnu leigufyrirkomulagi eftir því hvaða niðurstaða markaðskönnun skilar. Fyrirhugað er að fyrir lok árs 2020 verði kominn á samningur við aðila sem á eða getur annast byggingu og hönnun viðkomandi húsnæðis og séð um rekstur þess. Þá skal viðkomandi húsnæði afhent fullbúið, a.m.k. að hluta, eigi síðar en vorið 2023. Kostur er ef hægt er að afhenda húsnæði fyrir það tímamark. Þá er til skoðunar að umrætt húsnæði verði afhent með húsgögnum, fullbúið til leigu.

 

Ferlið

Fyrsta skrefið í þessu ferli er að auglýsa undanfarandi markaðskönnun þessa og óska eftir upplýsingum frá markaðnum um framboð þeirrar þjónustu sem óskað er eftir. Að markaðskönnun lokinni verður ákveðið hvort verkefnið verður boðið út í formi þjónustusamnings eða hvort óskað verði eftir tilboðum í hefðbundnu leiguferli. Miðað er við að settar verði fram lágmarkskröfur fyrir þátttöku í innkaupaferli um þjónustukaup verði sú leið valin.

 

Spurningar til áhugasamra fyrirtækja

Þess er óskað að slík fyrirtæki svari eftirfarandi spurningum:

  1. Hvert er nafn fyrirtækisins  eða samstarfsfyrirtækjanna og kennitala/–tölur? Hverjir eru helstu stjórnendur og/eða lykilstarfsmenn?
  2. Hvaða reynslu og getu hefur fyrirtækið/-in og starfsmenn þess, sem myndi nýtast við hönnun, byggingu, þróun og rekstur skrifstofuhúsnæðis að þessari stærðar?
  3. Hefur/hafa fyrirtækið eða –in eignir í leigu og rekstri og þá hversu stórt er eignasafn viðkomandi?
  4. Óskað er eftir upplýsingum um verðhugmyndir fyrir húsnæði að þessari stærð og í samræmi við þær kröfur sem gerðar eru samkvæmt reynslu viðkomandi.
  5. Hvaða hæfiskröfur telur fyrirtækið/-in eðlilegt og heppilegt að gera við val á fyrirtækjum, sem eiga að veita ofangreinda þjónustu?
  1. Vill fyrirtækið/-in koma einhverjum upplýsingum eða athugasemdum á framfæri í tengslum við fyrirhugað leiguverkefni eða þjónustukaupi?

 

Nánari upplýsingar eru að finna í fylgiskjölum sem eru aðgengileg í Tendsign undir heitinu 21179 RFI: Húsnæðisöflun fyrir heilsugæslur á Akureyri.

Þess er óskað að svör berist Ríkiskaupum í gegnum vefinn Tendsign.is eigi síðar en 5. maí, 2020. Fyrirspurnir skulu einnig berast í gegnum Tendsign.is

 

Frekari upplýsingar um þær kröfur sem húsnæðið verður að uppfylla verða aðgengilegar í hinu rafræna útboðskerfi TendSign, laugardaginn 4. apríl, 2020. 

Ákvæði um val á tilboði er í grein 2.7 í ÍST 30 og í 79. gr. laga um opinber innkaup.

Fyrirspurnir varðandi verkefni 21179 skulu sendar rafrænt í gegnum útboðskerfið TendSign og verða svör birt þar.

Fyrirspurnarfrestur rennur út 25. apríl, 2020 en svarfrestur er til og með 29. apríl 2020.

Tilboðum skal skila rafrænt í TendSign eigi síðar en kl. 12:00 þriðjudaginn 5. maí 2020.

Sjá frekari upplýsingar á vefsíðunni: http://utbodsvefurinn.is/husnaedisofun-fyrir-heilsugaeslur-a-akureyri/