Kærkomin gjöf á Heilbrigðisstofnunina á Þórshöfn

Afhending gjafarinnar -Starfsfólk heilsugæslunnar á Þórshöfn ásamt fulltrúa Ísfélags Vestmannaeyja á…
Afhending gjafarinnar -Starfsfólk heilsugæslunnar á Þórshöfn ásamt fulltrúa Ísfélags Vestmannaeyja á Þórshöfn og stjórnarkonum Styrktarfélags Heilbrigðisstofnunar Þingeyinga. F.v: Anna L. Ómarsdóttir, Sigurður Halldórsson læknir, Rafn Jónsson, Auður Gunnarsdóttir og Guðrún Guðbjartsdóttir.

Heilbrigðisstofnun Norðurlands á Þórshöfn hefur borist höfðingleg gjöf og er það sótthreinsunarofn, autoclavi, sem dauðhreinsar tæki og áhöld heilsugæslunnar en verðmæti hans er rúm átta hundruð þúsund. Ísfélag Vestmannaeyja á Þórshöfn gaf fjárhæðina til Styrktarfélags Heilbrigðisstofnunar Þingeyinga en hana skyldi nýta til nauðsynlegra tækjakaupa á heilsugæslustöðina á Þórshöfn.
Fulltrúar Ísfélagsins á Þórshöfn og Styrktarfélagsins mættu á heilsugæsluna við formlega afhendingu tækisins þar sem starfsfólkið þakkaði kærkomna gjöf því nú er ekki lengur þörf á að senda áhöld stöðvarinnar burt til sótthreinsunar.
Styrktarfélag Heilbrigðisstofnunar Þingeyinga hefur það markmið að styðja starfsstöðvar Heilbrigðisstofnunar Norðurlands í Þingeyjarsýslum til tækjakaupa og því er velvilji og stuðningur bæði einstaklinga og fyrirtækja afar mikilvægur, líkt og gjöf Ísfélagsins sannar nú en það er ekki fyrsta stórgjöf fyrirtækisins til Styrktarfélagsins.

Heilbrigðismál eru byggðamál
Auður Gunnarsdóttir er formaður Styrktarfélags Heilbrigðisstofnunar Þingeyinga og flutti hún stutt ágrip af sögu félagsins um leið og hún þakkaði Ísfélaginu gjöfina. Þar kom fram að Styrktarfélagið var stofnað fyrir rúmum 20 árum og telur nú um 300 félaga sem greiða þangað árgjöld og eru nýir félagar ávallt velkomnir. Auk árgjalda fær félagið tekjur af sölu minningarkorta að ógleymdum dýrmætum framlögum fyrirtækja og einstaklinga. Styrktarfélagið hefur í gegnum tíðina starfað ötullega að fjársöfnun til stuðnings heilbrigðismálum í Þingeyjarsýslum ásamt kaupum á ýmsum búnaði en má þar nefna t.d. vönduð sjúkrarúm, hjartaþolspróftæki, ristilspeglunartæki og margt fleira.
Styrktarfélagið lagði einnig til fé í endurbyggingu „gamla sjúkrahússins“ á Húsavík, þar sem félagið hefur eitt herbergi til umráða en það er til afnota fyrir sjúklinga sem ekki þurfa innlagnar við en einnig fyrir aðstandendur sjúklinga á sjúkrahúsinu. Þessi þjónusta er vel nýtt og mikilvægur stuðningur við sjúklinga og aðstandendur að sögn Auðar sem sagði ennfremur: „Helsti tilgangur Styrktarfélagsins er að safna peningum en þeir eru ekki allt. Okkur ber einnig skylda til að halda málefnum heilbrigðisstofnana í Þingeyjarsýslum á lofti því heilbrigðismál eru byggðamál og eitt af þeim stóru málum sem ráða miklu um búsetuval fólks.“