Öflugur stuðningsaðili á Sauðárkróki

Kristrún Snjólfsdóttir, Herdís Klausen, Gunnsteinn Björnsson, Jónas Svavarsson, Bjarki Tryggvason, L…
Kristrún Snjólfsdóttir, Herdís Klausen, Gunnsteinn Björnsson, Jónas Svavarsson, Bjarki Tryggvason, Leó Viðar Leósson. Mynd: P.F.

Starfsstöðvar Heilbrigðisstofnunar Norðurlands eiga velunnara víða um land sem sýna stofnuninni hlýhug í verki.
Kiwanisklúbburinn Drangey í Skagafirði verður 40 ára nú í maí og af því tilefni gaf klúbburinn glæsileg sjónvörp til Heilbrigðisstofnunar Norðurlands á Sauðárkróki, fimm tæki á stofur á sjúkradeild og stórt tæki á deild 2. ækin leysa af hólmi minni tæki sem fyrir voru.

Herdís Klausen, yfirhjúkrunarfræðingur, tók við gjöfinni 13. apríl s.l.og þakkaði velvild Kiwanisklúbbsins sem hefur verið ötull að fjármagna tæki og hluti fyrir stofnunina á Sauðárkróki. Sagði hún mikinn mun fyrir heimilisfólk að hafa fengið stærri tæki og þar með aukin þeirra lífsgæði.
Gunnsteinn Björnsson, forseti Kiwanisklúbbsins, segir stærstu gjöf klúbbsins til stofnunarinnar vera speglunartækið sem gefið var fyrir um fjórum árum síðan en það var verkefni upp á 19 milljónir. Jafnframt hefur klúbburinn greitt kostnað við speglun á 55 ára Skagfirðingum síðan þá,  en samningur þess efnis var til fimm ára. Kiwanisklúbburinn hefur ekki látið þar við sitja en tveir bílar sem sambýli HSN á Sauðárkróki hafa til umráða eru einnig gjöf frá klúbbnum. Heilbrigðisstofnun Norðurlands þakkar ómetanlegan stuðning, nú sem fyrr.