Ráðið í tvær sérnámsstöður í heilsugæsluhjúkrun á HSN

Berglind Ragnarsdóttir og Kristey Þráinsdóttir
Berglind Ragnarsdóttir og Kristey Þráinsdóttir

Berglind Ragnarsdóttir og Kristey Þráinsdóttir hafa verið ráðnar í sérnámsstöður í heilsugæsluhjúkrun við HSN frá hausti 2019. Þær eru báðar starfsmenn HSN Húsavík. 

Sérnám í heilsugæsluhjúkrun er 60 eininga diplómanám og er samstarfsverkefni milli Heilbrigðisstofnunar Norðurlands, Háskólans á Akureyri og Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins. Námið skiptist í klíníska vinnu á starfsstöðvun HSN, námslotur við Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins og Háskólann á Akureyri ásamt kynnisheimsóknum á ýmsar starfsstöðvar.

Markmið sérnámsins er að auka þekkingu og færni hjúkrunarfræðinga í viðfangsefnum heilsugæsluhjúkrunar. Hlutverk heilsugæslunnar er skoðað út frá samfélagslegri ábyrgð hennar í þeim tilgangi að efla færni sérnámshjúkrunarfræðinga í að vinna að þróun og framgangi heilsugæslunnar innan samfélagsins. Sérstök áhersla er lögð á lausnamiðaða nálgun sem og þróun og styrkingu sérnámshjúkrunarfræðings sem sjálfstæðs meðferðaraðila í þverfaglegu samstarfi. Námið felur m.a. í sér greiningu á tækifærum innan heilsugæslunnar og hvernig þróa megi þjónustu á þessu sviði til framtíðar ásamt því að kynnast sérhæfðu skipulagi almannavarna varðandi náttúruhamfarir eða útbreiðslu sjúkdóma.

Við bjóðum Berglindi og Kristeyju velkomnar í sérnámsstöður við HSN og óskum þeim góðs gengis.