Sameiningin hefur skilað faglegra samstarfi á Norðurlandi

Heilbrigðisstofnun Norðurlands
Heilbrigðisstofnun Norðurlands

Með tilkomu Heilbrigðisstofnunar Norðurlands, sem tók til starfa haustið 2014, hefur faglegt samstarf á svæði hennar aukist og skilað bættri þjónustu og aukinni starfsánægju. Þetta kom fram á ársfundi HSN sem haldinn var í Hofi á Akureyri 21. september en árið 2016 var annað heila rekstrarár stofnunarinnar. Halli varð á rekstri HSN í fyrra sem nemur 0,4% af veltu, eða 23,4 milljónum króna. Gert er ráð fyrir að reksturinn verði í jafnvægi í ár.

Heilsugæsluþjónusta fyrir 35 þúsund Norðlendinga

Heilbrigðisstofnun Norðurlands sinnir allri heilsugæsluþjónustu á svæðinu frá Þórshöfn í austri til Blönduóss í vestri. Starfsemin er á sex megin starfsstöðvum, þ.e. á Húsavík, Akureyri, Dalvík, í Fjallabyggð, á Sauðárkróki og Blönduósi en þjónusta stofnunarinnar nær til ríflega 35 þúsund íbúa á þessu svæði. Heilsugæslustöðvar og heilsugæslusel HSN eru 17 talsins og þar á meðal er ný heilsugæslustöð í Mývatnssveit sem opnuð var í ágúst 2016. Þá rekur stofnunin 149 sjúkra-, hjúkrunar- og dvalarrými á Húsavík, Siglufirði, Sauðárkróki og Blönduósi.

 

Rekstrarlegt jafnvægi í ár

Guðmundur Magnússon, framkvæmdastjóri fjármála og stoðþjónustu HSN, gerði á ársfundinum grein fyrir ársreikningum 2016. Ástæða halla í fyrra var fyrst og fremst sú að nauðsynlegt reyndist að endurnýja tækjabúnað, skrifstofubúnað og bíla stofnunarinnar og voru fjárfestingar því verulega umfram það sem þeim voru markaðar í fjárlögum. Rekstrargjöld HSN námu 5.158 mkr. á árinu 2016 en framlag ríkissjóðs nam rúmum 4.574 mkr. og sértekjur 560 milljónum króna. Launagreiðslur námu tæplega 3,7 milljörðum króna en í heild starfa 520 manns hjá Heilbrigðisstofnun Norðurlands.

Þjónusta aukin á mörgum sviðum

Á mörgum sviðum hefur þjónusta HSN verið efld að undanförnu og má þar nefna að mönnun var aukin í heimahjúkrun þar sem hún var veikust fyrir, tveimur námsstöðum í heilsugæsluhjúkrun var komið upp við stofnunina, hjúkrunarmóttaka á Akureyri var efld, næringarráðgjöf aukin og sálfræðiþjónusta styrkt með ráðningu yfirsálfræðings með starfsstöð á Akureyri. Læknamönnun á Akureyri var einnig aukin og nemar í heilsugæslulækningum ráðnir. Þá var mikil uppbygging á upplýsingakerfum stofnunarinnar.

Á árinu 2016 hófst vinna við stefnumótun HSN sem ráðgjafafyrirtækið Nolta stýrði.
Niðurstaða stefnumótunarvinnunnar var kynnt fyrir starfsmönnum samhliða ársfundinum sl. fimmtudag. Sömuleiðis var kynnt skýrsla um húsnæðismál heilsugæslunnar á Akureyri þar sem lagt er til að byggðar verði tvær nýjar stöðvar í stað núverandi húsnæðis.

Ný stefnumótun mikilvægt tæki

Jón Helgi Björnsson, forstjóri Heilbrigðisstofnunar Norðurlands, segir að mikilvægum áföngum hafa verið náð í sameiningu heilsugæslustofnana á Norðurlandi undir merki HSN.

„Mestu skiptir faglegi ávinningurinn og bætt þjónusta. Við munum halda áfram á sömu braut og byggjum m.a. á þessari nýju stefnumótun sem við höfum nú lokið. Með henni höfum við komið okkur upp verkfæri til að byggja á sameiginlega sýn um hvert við viljum stefna og hvernig við mælum árangur í starfseminni. Auk uppbyggingar í þjónustu eru líka framkvæmdaverkefni sem vinna þarf að og þeirra stærst er húsnæðismál heilsugæslunnar á Akureyri, sem til umfjöllunar var á ársfundinum. Það teljum við brýnt að leysa á næstu fimm árum,“ segir Jón Helgi.