Skipulag á starfsemi HSN frá 18. maí

Opið verður fyrir tímabókanir í hefðbundna móttöku lækna, hjúkrunarfræðinga og annarra fagstétta og fyrir símtöl.

Ungbarnavernd fer í hefðbundið skipulag. Æskilegt er að einn fylgdarmaður fylgi barni.

Mæðravernd verður óbreytt og gert ráð fyrir að verðandi móðir komi ein til skoðunar.

Heilsuvernd grunnskólabarna verður með hefðbundnum hætti.

Bóka þarf áfram tíma í blóðprufur og í röntgen ef ekki er um bráðarannsóknir að ræða.

Hópamyndanir á biðstofum eru óæskilegar og er fólk beðið um að viðhafa tveggja metra regluna, virða tímasetningar og mæta á tilsettum tíma, ekki of snemma og ekki of seint.

Ekki er gert ráð fyrir að fylgdarmaður komi með í viðtal nema brýn þörf sé á, t.d. ef um börn er að ræða og þá aðeins einn fylgdarmaður.

Þeir sem eiga pantaðan/bókaðan tíma en eru með einkenni öndunarfærasýkingar þegar þeir eiga tímann skulu fá nýjan nema upp komi bráð veikindi. Ítrekað er að þeir sem þurfa að leita til heilsugæslunnar vegna gruns um Covid-19 eða öndunarfærasýkingar komi ekki beint á stöð heldur hringi á undan. Áfram er lögð áhersla á að taka sýni vegna Covid-19 í bílum.

 

Fólk er beðið um að þvo sér um hendur eða nota handspritt strax við komu og ávallt að viðhafa grundvallarsmitgát.

 

Ákvarðanir um frekari tilslakanir á heimsóknum á sjúkra- og hjúkrunardeildir verða tilkynntar 18. maí.

Hafa ber í huga að ef breytingar verða á gangi faraldursins, t.d. ef upp koma hópsýkingar, þarf að endurskoða þessa áætlun.