Starfsfólk HSN Húsavík laus úr sóttkví

Enginn þeirra sem hugaði að ástralska ferðamanninum sem lést á Húsavík, smitaðist af kórónuveirunni. Læknir segir alla hafa átt von á því að veikjast og það sé athyglisvert hversu mikilli vinnu sé hægt að sinna úr sóttkví.
 

Tuttugu og þrír einstaklingar, starfsfólk Heilbrigðisstofnunar Norðurlands á Húsavík, slökkviliðsmenn og lögreglumenn hafa nú lokið tveggja vikna sóttkví eftir að ástralskur ferðamaður lést af völdum COVID-19 á Húsavík.

Enginn smitaðist af veirunni og geta því allir snúið til síns heima. Þetta staðfestir Jón Helgi Björnsson, forstjóri HSN sem segir í raun einstaka gæfu að enginn hafi smitast. Allir séu ofsalega kátir með að þetta hafi sloppið eins og þetta hafi verið erfitt og leiðinlegt atvik. 

Áttu allir von á því að veikjast

„Það er ekki hægt að neita því að við erum ekkert leið yfir því að komast úr sóttkví,“ segir Ásgeir Böðvarsson, yfirlæknir á sjúkra- og hjúkrunarsviði Heilbrigðisstofnunar Norðurlands á Húsavík. Hann segir ferlið hafa gengið rosalega vel, hópurinn hafi verið samheldinn og reynt að gera gott úr þessu. 

Ásgeir segir alla hafa átt von á því að veikjast þar sem þetta hafi ekki verið neitt hurðarhúnasmit og engin leið að verjast smiti á fullnægjandi hátt. „Við áttum öll von á því að veikjast svo við fórum í nákvæma skráningu á einkennum svo við gætum lært eitthvað af þessu, en svo veiktist enginn.“

Starfsfólk sótthreinsaði sjálft sig og svæðið vel

Ásgeir segir ekki gott að segja hvernig standi á því. Það gæti skipt máli að starfsfólk hafi sótthreinsað sjálft sig og svæðið vel eftir atburðinn. Einnig gæti það haft eitthvað að segja að það var ekki búið að umgangast sjúklinginn lengi heldur var þetta einn einstakur atburður.

Svo séu veirurnar misgrimmar á sínu æviferli og fólk sé ekki alltaf jafn smitandi. Ein kenningin sé því að þessi veira hafi verið að gefa eftir eða jafnvel deyjandi. 

Veiran ýtir okkur að stafrænum lausnum

Hann segir athyglisvert og lærdómsríkt hversu miklu þau gátu sinnt af þjónustu þrátt fyrir að vera í sóttkví. „Það kemur manni á óvart hvað við getum notað tölvur mun meira heldur en við höfum gert svo þessi veira hefur í rauninni sparkað okkur inn í starfrænu veröldina, og ég er nokkuð viss um það að fundir milli landshluta og byggðarhluta og jafnvel innan húsa verða mun meira með fjarfundatækni heldur en áður“.

Búið að skipta starfsstöðinni upp

Ásgeir segir þau hafa verið búin að skipta starfstöðinni í tvennt og í þann mund að byrja að starfa eftir því þegar allt fór í bál og brand. Frá og með morgundeginum starfi heilbrigðisstofnunin því í tveimur hópum sem skarist ekki. Hann segir atburðinn þó hafa breytt þeim plönum örlítið, þau verði harðari en upphaflega var lagt upp með. 

Hvað er það fyrsta sem þú gerir núna fyrst þú ert laus úr sóttkví? „Það hljómar nú kannski ekkert sérlega freistandi en ég er að fara að halda skype fund fyrir starfsmenn um nýja vinnufyrirkomulagið - en að heiman“.

Fréttin er tekin af www.ruv.is