Vill miðstöð á Norðurlandi fyrir brotaþola

Lögreglustjórinn á Norðurlandi eystra vill setja upp miðstöð á Norðurlandi fyrir þolendur ofbeldis.
Lögreglustjórinn á Norðurlandi eystra vill setja upp miðstöð á Norðurlandi fyrir þolendur ofbeldis.

Lögreglustjórinn á Norðurlandi eystra vill setja upp miðstöð á Norðurlandi fyrir þolendur ofbeldis. Bæjaryfirvöld og stærstu stofnanir á Akureyri taka vel í hugmyndina.  Halla Bergþóra Björnsdóttir, lögreglustjóri á Norðurlandi eystra, kynnti bæjaryfirvöldum á Akureyri þessar hugmyndir. Hún vill að komið verði upp miðstöð fyrir þolendur ofbeldis, 18 ára og eldri, sams konar og Bjarkarhlíð sem hefur verið starfrækt í Reykjavík í tæpt ár. Á fyrstu sex mánuðum Bjarkarhlíðar sóttu hátt í 200 manns þjónustu þangað, flestir vegna heimilisofbeldis. 

Öll aðstoð á einum stað

Halla segir að þótt ýmis konar þjónusta sé á Norðurlandi, sé æskilegra að brotaþolar geti fengið aðstoð á einum stað. „Þú hefur auðvitað aðgengi að heilbrigðisstofnunum, þú hefur aðgengi að lögreglu og að félagsmálayfirvöldum en þú þarft að fara á alla þessa staði. Í þessari hugmyndafræði ferðu á einn stað og getur fengið úrlausn þinna mála þannig,“ segir Halla. 
Þannig fengi fólk til dæmis ráðgjöf um hvort brot sé fyrnt og hvort æskilegt sé að kæra. Hún segir ljóst að þörfin sé brýn. „Ég er svo sem ekki með töluna en það eru ofbeldisbrot hér eins og annars staðar og í réttu hlutfalli við þá sem hér búa, þannig að hér eru brotaþolar sem þurfa aðstoð eins og annars staðar,“ segir Halla. 

Bjartsýn á að úrræðið verði að veruleika

Auk þess að senda erindi til velferðarráðs Akureyrarbæjar hefur Halla rætt við fulltrúa Aflsins, Háskólans á Akureyri og heilbrigðisstofnana. Þó málið sé á byrjunarstigi, og háð því að ríkisvaldið komi að fjármögnun, þá segir hún að vel hafi verið tekið í hugmyndina og er bjartsýn á að hún verði að veruleika. „Það voru allir sammála því að þessi auka viðbót sem Bjarkarhlíð er, svona þolendamiðstöð, væri bara mjög gott fyrir þolendur og væri þörf á því. Þannig að við teljum að það sé virkileg þörf fyrir þetta hérna líka,“ segir Halla.  

http://www.ruv.is/frett/vill-midstod-a-nordurlandi-fyrir-brotathola