Lionsklúbbur Sauðárkróks gefur HSN Sauðárkróki fjölþjálfa

 

Lionsklúbbur Sauðárkróks afhenti á dögunum endurhæfingardeild HSN – Sauðárkóki,  Nustep T5xr fjölþjálfa ásamt fylgihlutum að verðmæti kr. 1.550.000,- að gjöf.  Lionsfélagar fjölmenntu eftir fund upp á Sauðárhæð og inn í sal endurhæfingardeildar.  Þar afhenti Alfreð Guðmundsson formaður tækið og sagði það vera von Lionsfélaga að fjölþjálfinn kæmi að góðum notum fyrir þá sem þyrftu að nýta sér endurhæfingaraðstöðuna.  Herdís Klausen sem veitti tækinu viðtöku fyrir hönd HSN sagði það ómetanlegt að fá svona gjöf og fór yfir hvað víða um stofnunina mætti sjá gjafir frá Lionsklúbbunum í Skagafirði.  Fanney Ísfold Karlsdóttir, yfirsjúkraþjálfari, fræddi félaga um tækið og sagði að fjölþjálfinn væri þol- og styrktartæki sem kæmi til með að nýtast breiðum hópi skjólstæðinga og það hefði verið efst á óskalistanum.  Árný Lilja Árnadóttir sjúkraþjálfari stillti svo fjölþjálfann fyrir Alfreð formann sem fékk að prófa fyrstur félaga.