Rafknúið hjól á HSN Sauðárkróki

Lionsklúbbur Sauðárkróks kom færandi hendi mánudaginn 30 maí og afhenti hjúkrunar- og dvalardeildum HSN á Sauðárkróki  rafknúið  hjól að andvirði 800.000 krónur.
Starfsfólk og heimilismenn dvalarheimilisins hrintu af stað söfnun og var Lionsklúbburinn verndari söfnunarinnar. Aðrir sem lögðu söfnuninni lið: Kaupfélag Skagfirðinga, Hlíðarkaup, Kiwanisklúbburinn Drangey, Dögun ehf, Trésmiðjan Ýr, Verslunarmannafélag Skagafjarðar, Kvenfélag Sauðárkróks, Kvenfélagið Framför, Skarðshreppi, Kvenfélag Staðarhrepps, Kvenfélag Akrahrepps, Kvenfélag Seyluhrepps, Kvenfélag Rípurhrepps, Kvenfélag Lýtingsstaðahrepps og einstaklingar.

Hjólið er með í verkefninu „Hjólað óháð aldri“ (HÓA) en það varð til í Kaupmannahöfn árið 2012. Starfsemi hreyfingarinnar hefur breiðst hratt út um allan heim og í dag er HÓA til í yfir 20 löndum á fleiri hundruð hjúkrunarheimilum. Fyrstu hjólin komu til Íslands haustið 2015. Markmið HÓA  er að rjúfa einangrun og efla lífsgæði vistmanna á hjúkrunarheimilum með því að gefa þeim kost að fara út að hjóla, fá vind í vangann og roða í kinnarnar. Að verkefninu koma starfsmenn, aðstandendur og sjálfboðaliðar.

Ásgrímur Sigurbjörnsson formaður Lionsklúbbs Sauðárkróks afhenti upphafsaðilum söfnunarinnar, þeim Ástu Karen Jónsdóttur sjúkraliða og Önnu Pálínu Þórðardóttur íbúa,  lykla af hjólinu. Herdís Klausen yfihjúkrunarfræðingur svæðis og Guðbjörg Árnadóttir yfirhjúkrunarfræðingur hjúkrunarsviðs tóku svo formlega við hjólinu og þökkuðu öllum aðilum sem komu að verkefninu  kærlega fyrir þeirra framlag. Lionsklúbburinn bauð gestum og gangandi í veislukaffi. Seinna sama dag var haldið námskeið fyrir verðandi Hjólara.

Rafknúna hjólið mun nýtast vel

Herdís Klausen yfihjúkrunarfræðingur svæðis og Guðbjörg Árnadóttir yfirhjúkrunarfræðingur hjúkrunarsviðs veita myndarlegri gjöf viðtöku