Aðalfundur Styrktarfélags Heilbrigðisstofnunar Þingeyinga

Frá aðalfundi Styrktarfélags Heilbrigðisstofnunar Norðurlands
Frá aðalfundi Styrktarfélags Heilbrigðisstofnunar Norðurlands

Aðalfundur Styrktarfélags Heilbrigðisstofnunar Þingeyinga fyrir árið 2016 var haldinn á Húsavík í lok maí.

Félagið varð 20 ára í fyrra og af því tilefni talaði Aðalbjörg Pálsdóttir frá Vallarkoti nokkur orð um fyrstu ár félagsins á fundinum.
Hún var í fyrstu stjórn þess sem var skipuð auk hennar Guðna Kristinssyni,  Húsavík, Böðvari Jónssyni,Gautlöndum,  Birni Guðmundssyni Lóni og Jóhönnu Aðalsteinsdóttur Húsavík.

Auður Gunnarsdóttir formaður félagsins flutti skýrslu stjórnar og kom m.a inn á að tilgangur félagsins er að vera stuðningsaðili Heilbrigðisstofnunar Norðurlands, en þó aðeins þeirra, sem hafa starfsstöðvar í Þingeyjarsýslum.

Tekjuöflun þessa árs skiptist nokkuð jafnt milli flokka, þannig að árgjöld og sala minningarkorta er nokkuð á pari við arfleiðslugjafir einstaklinga, eða um 1,2 milljónir á flokk, en mest munar um önnur framlög , t.d. gjafir frá fyrirtækjum og einstaklingum, sem nema um 4 milljónum þetta árið.

Fram kom í máli Auðar að félagið hefur verið mjög duglegt að styrkja stofnunina í ár og sennilega sé um met að ræða frá stofnun þess. Félagið gaf til Heilbrigðisstofnunarinnar, tæki og tól, fyrir kr. 14.629.086.-

"Dýrustu tækin í þessari upphæð eru hjartalínuriti, lyftubaðstóll, (sem Lionsklúbbur Húsavíkur lagði fé til), og var formlega afhentur 9. maí, blöðruskanni, hjartahnoðtæki sem fór í sjúkrabílinn á Þórshöfn og svo hjartaþolprófstæki, sem farið var í sérstakt átak fyrir, þar sem sjóðir áttu ekki nægilegt fjármagn, en brýn þörf var á þessu tæki. Fyrirtæki og einstaklingar brugðust vel við og ber þar hæst Trésmiðjuna Rein og Lionsklúbb Húsavíkur. Þetta tæki var afhent formlega í lok aðalfundarins en einnig voru afhent rafskutla og tækjabúnaður til notkunar á stofu þar sem sjúklingar dvelja að lokinni aðgerð. 

Formlegar afhendingar fóru einnig  fram á árinu, sem tengdust gjöf Kristínar og Kjartans og var það gert með viðhöfn. Þann 14.mars var afhent í Skógarbrekku hjartalínuritstæki, blóðþrýstingsmælir, hitamælir og eyrnaskoðunartæki að upphæð rúmlega 2 milljónir króna og þann 28.júní var afhent Samsung Ultra HP 65“ sjónvarp, Ipad professional og Far Tec þráðlaust hljóðkerfi, sérhannað fyrir  heyrnardaufa. Þessi pakki nýtist mjög vel í iðjuþjálfun og margt fleira, sem hentar íbúum Skógarbrekku.                                                                    

Við opnun nýrrar heilsugæslustöðvar í Mývatnssveit afhenti Gunnar Brynjarsson fyrir hönd félagsins, kaffivél, sem var að ósk Dagbjartar, forstjóra stöðvarinnar. Því miður gátu ekki fleiri úr stjórn félagsins mætt á opnunina,“ sagði Auður.

Kristín Arinbjarnardóttir lét af starfi gjaldkera á fundinum en hún hefur sinnt því starfi í langan tíma og var henni færður blómvöndur í þakkklætisskyni.
Auður Gunnarsdóttir formaður SHÞ afhenti Kristínu Arinbjarnardóttur blómvönd í þakklætisskyni en hún lét af störfum sem gjaldkeri
Við gjaldkerastarfinu tók Guðrún Guðbjartsdóttir en áfram sitja í stjórn Auður Gunnarsdóttir, Húsavík formaður, Guðrún K. Aðalsteinsdóttir, Húsavík ritari, Guðrún María Sigurðardóttir, Ærlæk og Gunnar Þór Brynjarsson, Baldursheimi meðstjórnendur. 

Í varastjórn sitja Hlöðver P. Hlöðversson, Björgum og Elín Baldvinsdóttir, Svartárkoti.

Fjáröflun félagsins er fyrst og fremst með innheimtu árgjalda félagsmanna, sölu minningarkorta, frjálsum framlögum og peningagjöfum.

Hægt er að skrá sig í félagið hér og þá eru frjáls framlög alltaf vel þegin og hægt að leggja þau inn á reikning félagsins en banka- og reikningsnúmer félagsins er 1110-26-001060 - Kt. 520296-2479.

Hallgrímur Hreiðarsson læknir tók við hjartaþolstækinu fyrir hönd stofnunarinnar  Aðalbjörg Pálsdóttir sem sat í fyrstu stjórn styrktarfélagsins flutti nokkur orð á fundinum